Donald Trump Bandaríkjaforseti íhugar að gefa ólöglegum innflytjendum í Bandaríkjunum réttindi til að starfa í landinu og greiða þar skatt, án þess þó að veita þeim ríkisborgararétt. Frá þessu greinir CNN í kvöld og vísar í heimildarmenn sína í Hvíta húsinu.
Að sögn CNN þykir forsetanum líklegra að umfangsmikil lagasetning um innflytjendur – sem myndi meðal annars heimila fólki sem dvelur réttindalaust í landinu og hefur ekki gerst brotlegt við lög, að starfa og greiða þar skatt – verði líklegri til að komast í gegnum báðar deildir Bandaríkjaþings.
Trump mun ávarpa Bandaríkjaþing í nótt að íslenskum tíma þar sem reiknað er með að hann muni ræða hugmyndir sínar í þessum málum. Ræðunnar er beðið með mikilli eftirvæntingu og er jafnvel búist við að hann reyni að slá nýjan tón eftir stormasamar fyrstu vikur í embætti.
Tilskipanir Trump um innflytjendur hafa á fyrstu vikum hans í embætti sætt mikilli gagnrýni, bæði innan sem utan Bandaríkjanna.
Þann 27. janúar var ferðabannstilskipun Trump kynnt til sögunnar sem olli mikilli ringulreið á flugvöllum víða um heim. Ríkisborgurum sjö ríkja – Írans, Íraks, Líbíu, Sómalíu, Súdan, Sýrlands og Jemen – var þá neitað um komu til Bandaríkjanna, þrátt fyrir að búa yfir gildri vegabréfsáritun.
Dómstólar dæmdu síðar að tilskipunin stæðist ekki bandarísk lög, en hún fól einnig í sér að þriggja mánaða hlé yrði gert á móttöku flóttafólks og koma sýrlenskra flóttamanna var stöðvuð ótímabundið.
CNN: Trump íhugar að gefa ólöglegum innflytjendum færi á að vinna og greiða skatt

Tengdar fréttir

Trump vill stórauka framlög til hermála
Umfangsmikill niðurskurður er boðaður á öðrum sviðum, svo sem á sviði þróunaraðstoðar og til umhverfismála.

Trump kennir Obama bæði um mótmæli og leka
Lekar til fjölmiðla hafa leikið Trump og ríkisstjórn hans grátt síðan hann tók við embætti í janúar.

Bush vill að Trump svari spurningum um tengslin við Rússland
George W. Bush segir frjálsa og óháða fjölmiðla vera nauðsynlega lýðræðinu.