Enski boltinn

Sturridge flýgur veikur heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Sturridge.
Daniel Sturridge. Vísir/Getty
Daniel Sturridge er á leiðinni heim frá La Manga eftir að framherji Liverpool greindist með vírus. Liverpool segir frá þessu á heimasíðu félagsins.

Liverpool er í æfingaferð á La Manga á Spáni en næsti leikur liðsins er ekki fyrr en um aðra helgi þar sem liðið er ekki lengur með í ensku bikarkeppninni.

Sturridge fór með liðinu til Spánar fyrr í þessari viku þrátt fyrir að vera ekki nógu frískur og ætlaði greinilega að gera allt til að vinna sér sæti í byrjunarliðinu.

Hann hefur hinsvegar ekki náð sér góðum og því var ákveðið að hann færi heim til Liverpool.

Aðrir leikmenn Liverpool verða á La Manga fram á sunnudag en liðið er að æfa tvisvar á dag í blíðunni á Spáni.

Daniel Sturridge hefur ekki náð að spila þúsund mínútur í öllum keppnum á þessu tímabili, bæði vegna meiðsla og vegna þess að hann kemst ekki í byrjunarliðið.

Daniel Sturridge hefur aðeins einu sinni verið í byrjunarliði Liverpool í síðustu sautján leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

Sturridge fékk sem dæmi ekkert að spila í stórleikjunum á móti Manchester City, Manchester Unitd, Chelsea og Tottenham á síðustu vikum en kom inn í leikjum á móti Everton, Stoke, Swansea og Hull. Eini byrjunarliðsleikurinn frá því í október var á móti Sunderland og hann skoraði í honum.

Sturridge er alls með 2 mörk og 2 stoðsendingar í 14 leikjum í úrvalsdeildinni á þessu tímabili en fjögur af sex mörkum hans á tímabilinu komu í fjórum leikjum hans í enska deildabikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×