Bandarískt par hefur höfðað mál á hendur tæknirisanum Apple vegna bílslyss sem varð dóttur þeirra að bana í desember 2014. BBC greinir frá.
Ökumaðurinn, sem var valdur að slysinu, var að nota FaceTime smáforritið frá Apple meðan hann keyrði. Smáforritið er myndbands-spjall, ekki ólíkt forritinu Skype. Hann hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi.
Í lögsókninni er því haldið fram að fyrirtækið hefði átt að búa þannig um hnútana að ökumenn ættu ekki að geta nýtt sér myndbands-spjallið á meðan þeir væru undir stýri.
Árið 2008 sótti Apple um einkaleyfi á sérstakri útgáfu FaceTime fyrir ökumenn sem slekkur sjálfkrafa á myndbands-spjallinu og leyfir aðeins hljóð meðan á akstri stendur.
Einkaleyfið var gefið út 2014 en Apple hefur enn ekki heimfært viðbótina upp á smáforritið FaceTime.
