Fótbolti

María Þóris komin aftur í norska landsliðið í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
María Þórisdóttir.
María Þórisdóttir. Vísir/Getty
Hin norsk-íslenska María Þórisdóttir er í nýjasta landsliðshópi norska kvennalandsliðsins í fótbolta en nýr landsliðsþjálfari hefur valið sinn fyrsta hóp.

Það er stórt skref fyrir Maríu að vinna sér aftur sæti í landsliðinu eftir eitt mjög erfitt ár þar sem hún gat ekkert beitt sér vegna erfiða meiðsla.

Martin Sjögren hefur tekið við þjálfun norska landsliðsins og valdi 24 manna hóp fyrir æfingamót á La Manga þar sem norska liðið mætir Svíþjóð og Englandi.

María Þórisdóttir missti af öllu síðasta tímabili með Klepp vegna meiðsla en hún var í HM-hópi Norðmanna á HM í Kanada sumarið 2015.

María á að baki átta landsleiki en sá fyrsti kom einmitt á móti Íslandi í Algarve-bikarnum í mars 2015.

Hún fékk tilboð um að spila með íslenska landsliðinu en valdi að spila fyrir Noreg enda búin að spila með öllum norsku yngri landsliðunum frá árinu 2008.

María Þórisdóttir er dóttir íslenska handboltaþjálfarans Þóris Hergeirssonar en Þórir gerði norska kvennalandsliðið í handbolta að Evrópumeisturum í síðasta mánuði.

Þórir og María héldu bæði upp á jólin á Íslandi og María sagði frá markmiði sínu að komast í EM-hóp Norðmanna í viðtali við íþróttadeild 365.  María sagðist þar dreyma um að mæta Íslandi á Evrópumótinu í Hollandi í sumar.

Það er hægt að sjá allan hópinn hjá Norðmönnum hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×