Wenger hitti Stan Kroenke, eiganda félagsins, á fundi í dag og varð niðurstaðan sú að hann myndi ekki stíga til hliðar eins og svo margir stuðningsmenn liðsins vilja sjá. Hann fær nýjan tveggja ára samning sem verður kynntur formlega á morgun.
Wenger stýrði Arsenal til þriðja bikarmeistaratitilsins á síðustu fjórum árum síðastliðinn laugardag en liðið hefur ekki unnið ensku úrvalsdeildina síðan árið 2004 og aðeins einu sinni á ríflega 20 ára ferli Frakkans hjá félaginu komist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Í fyrsta sinn í 19 ár verður Arsenal ekki í Meistaradeildinni á næstu leiktíð en liðið hafnaði í fimmta sæti í ensku úrvalsdeildinni. Þá féll liðið úr leik í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í ár, sjötta tímabilið í röð.
Henry Winter, einn fremsti og virtasti fótboltablaðamaður Englands, telur þessa ákvörðun Kroenke ekki góða en hann sér ekki fram á að Arsenal nálgist titilbaráttuna með Wenger í brúnni.
„Er Wenger að fara að vinna ensku úrvalsdeildina á næstu tveimur árum eða Meistaradeildina árið 2019 (ef hann þá kemst í hana)? Það er mjög ólíklegt. Félagið heldur áfram að fara niður á við,“ segir hann á Twitter-síðu sinni og bætir við:
„Ríkt og frægt félag eins og Arsenal með stóran og ástríðufullan stuðningsmannahóp ætti að vera að berjast um eitthvað annað og stærra en enska bikarinn. Arsenal er að fara niður á við,“ segir Henry Winter.
Will Wenger win PL in his next 2 years or CL in 2019 (if qualifies)? Highly unlikely. So #afc continue to drift (but Kroenke keeps making £)
— Henry Winter (@henrywinter) May 30, 2017
A wealthy, famous club like #afc with a huge, passionate support should be challenging for more than the FA Cup. They're drifting.
— Henry Winter (@henrywinter) May 30, 2017