HK er á mikilli siglingu í Inkasso-deildinni en liðið vann 1-0 sigur á toppliði Fylkis í kvöld og um leið sinn fjórða leik í röð.
Ásgeir Marteinsson skoraði eina mark leiksins á 28. mínútu en í upphafi síðari hálfleiks fékk Fylkir vítaspyrnu sem Daði Ólafsson brenndi af.
Keflavík nýtti tækifærið og skellti sér á topp deildarinnar með 2-1 sigri á Selfossi, 2-1. Jeppe Hansen og Marc McAusland skoruðu mörk Keflvíkinga en Svavar Berg Jóhannesson fyrir Selfoss.
Keflavík og Fylkir skildu jöfn í síðustu umferð, 3-3, en fyrrnefnda liðið er nú með 31 stig á toppi deildarinnar en Fylkir 30.
Þróttarar eru einnig með 30 stig eftir sigur á Gróttu í kvöld, 2-0. Viktor Jónsson og Vilhjálmur Pálmason skoruðu mörk Þróttara.
HK er nú komið með 24 stig og situr í sjötta sæti deildarinnar eftir sigurinn á Fylki í kvöld. Liðið hefur fengið helming stiga sinna í sumar í síðustu fjórum leikjum en þrír sigranna hafa unnist á útivelli.
Upplýsingar um markaskorara frá úrslit.net.

