Innlent

Kæra ákvörðun bæjarstjórnar vegna hugsanlegs vanhæfis

Sveinn Arnarsson skrifar
Hellubraut 7.
Hellubraut 7. vísir/eyþór
Ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um að leyfa niðurrif 109 ára gamals húss við Hellubraut í Hafnarfirði hefur verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Telja kærendur, sem búa í nágrenni við húsið, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar vanhæfa til að fjalla um málið.

Kærendur eru Sölvi Sveinbjörnsson og Jakob Ásmundsson. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti þann 9. nóvember að leyfa niðurrif hússins og breyta deiliskipulagi fyrir tvær lóðir sem gerir eiganda lóðanna kleift að byggja mun stærri hús en leyft er í fyrra skipulagi. Eigandi lóðarinnar eru hjónin Gunnar Hjaltalín, skoðunarmaður reikninga Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, og Helga Ragnheiður Stefánsdóttir, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili.

Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipulagsráðs og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir frændhygli ekkert hafa að gera með deiliskipulagsbreytinguna sem felur í sér um 40 prósent meira byggingamagn en áður.

„Þetta er ekkert öðruvísi en þegar aðrir fyrrverandi bæjarfulltrúar óska eftir breytingum á deiliskipulagi,“ segir Ólafur.

Þegar hann er spurður um tengsl sín við Gunnar Hjaltalín nefnir hann svokallað Brynjugengi. „Við Gunnar erum í klúbb saman sem spilar golf saman á þriðjudagskvöldum og höfum gert síðustu þrettán ár saman,“ segir Ólafur Ingi. „Í þeim hópi eru einstaklingar hvaðanæva úr samfélaginu.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×