Fótbolti

Stuðningsmenn Dortmund sýndu Mónakó-fólkinu mikinn höfðingsskap

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn liðanna á Westfalenstadion í gærkvöldi.
Stuðningsmenn liðanna á Westfalenstadion í gærkvöldi. Vísir/Samsett/Getty
Ekkert varð að leik Borussia Dortmund og Mónakó í Meistaradeildinni í gærkvöldi eftir að sprengjur sprungu við rútu Borussia Dortmund á leiðinni í leikinn. Leiknum var frestað um sólarhring en það voru ekki bara slæmar fréttir frá Þýskalandi í gær.

Áhorfendurnir voru nær allir komnir á Westfalenstadion þegar fréttist af sprengjunni þar sem einn leikmaður Dortmund, Marc Bartra, slasaðist á hendi. Stuðningsmenn beggja lið héldu ró sinni á leikvanginum á meðan beðið var eftir hvort yrði af leiknum.

Stuðningsmenn Borussia Dortmund og stuðningsmenn Mónakó sýndu allir mikinn klassa í þessum aðstæðum. Stuðningsmenn Mónakó fá mikið hrós fyrir að syngja „Áfram Dortmund“ félaginu til stuðnings þegar þeir fréttu af því að liðsrúta Dortmund hafi orðið fyrir árás og það kunnu heimamenn að meta.

Leiknum var frestað þangað til 16.45 í dag en það þýddi að þeir stuðningsmenn Mónakó sem höfðu ferðast frá suðurströnd Frakklands til Dortmund höfðu flestir í engin hús að venda.

Allir sem áttu miða á leikinn í gær fá miða á leikinn í kvöld. Stuðningsmenn Borussia Dortmund gátu sett sig í spor kollega sinna og hófu strax herferð á samfélagsmiðlum um að redda stuðningsmönnum Mónakó næturgistingu.

BBC fjallaði um þetta höfðinglega framtak Þjóðverjanna og birti meðal annars skemmtilega mynd þar sem stuðningsmenn Dortmund og stuðningsmenn Mónakó voru að borða saman heima hjá stuðningsmanni Dortmund. Það má sjá myndband frá BBC hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×