Erlent

Hungursneyð ríkir ekki lengur í Suður-Súdan

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Móðir vigtar barn sitt í næringarmiðstöð í Panthau í Suður-Súdan í lok síðasta mánaðar.
Móðir vigtar barn sitt í næringarmiðstöð í Panthau í Suður-Súdan í lok síðasta mánaðar. Vísir/AFP
Hungursneyð ríkir ekki lengur í Suður-Súdan eftir að henni var lýst yfir í febrúar síðastliðnum. Þetta kemur fram í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar standa að. Ástandið er þó enn grafalvarlegt en fjöldi fólks er enn á barmi hungursneyðar. BBC greinir frá.

Ástandið í Suður-Súdan hefur batnað til muna í kjölfar neyðaraðgerða þar í landi en í skýrslu Sameinuðu þjóðanna segir þó jafnframt að staðan sé enn alvarleg. Fjöldi þeirra sem eiga á hættu að svelta hefur enn fremur aukist nú í mánuðinum.

Hungursneyðinni var lýst yfir í Unity-fylki í Suður-Súdan í febrúar síðastliðnum að því er kom fram í tilkynningu frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Hungursneyðin var sú fyrsta sem lýst er yfir í heiminum í tæplega sex ár en hungursneyð var síðast lýst yfir í heiminum árið 2011 í Sómalíu.

Vopnuð átök, lítil uppskera og gríðarleg hækkun á matarverði hefur meðal annars verið talið liggja að baki hungursneyðinni en 1,7 milljón manna stendur enn frammi fyrir alvarlegu stigi hungurs, einu stigi lægra en hungursneyð.

Stephen O‘Brien, yfirmaður mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna, segir að nú þurfi að stíga varlega niður fæti.

„Þetta þýðir ekki að við höfum sloppið fyrir horn og komið í veg fyrir hungursneyð. Fleiri eru nú á barmi hungursneyðar vítt og breitt um Suður-Súdan en voru það í febrúar.“

Sameinuðu þjóðirnar segja heimsbyggðina nú standa frammi fyrir stærsta neyðarástandi síðan við lok Seinni heimsstyrjaldarinnar. Næstum 20 milljónir standa nú frammi fyrir hungursneyð í norðausturhluta Nígeríu, Sómalíu, Jemen og Suður-Súdan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×