Íslenski boltinn

Gary Martin: Þjálfarar KR höfðu eitthvað á móti mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gary Martin er kominn til Belgíu.
Gary Martin er kominn til Belgíu. mynd/lokeren
Gary Martin gekk í gær frá tveggja og hálfs árs samning við belgíska félagið Lokeren en hann kom til félagsins frá Víkingi í Reykjavík.

Gary, sem lék á Íslandi í sjö tímabil með ÍA, KR og Víkingi, og hefur lengi stefnt að því að komast í sterkari deild en þá íslensku.

Hann segist aldrei hafa misst trúna á að ná markmiðum sínum en að miklu máli hafi skipt að losna frá KR eftir erfitt tímabil árið 2015, þar sem hann var ekki með fast sæti í byrjunarliðinu.

„Ég var ekki á bekknum af því að ég var ekki nógu góður, allir vita það. Þetta var persónulegt. Það er einfalt að þjálfarnir þrír sem stjórnuðu KR kunnu ekki vel við mig eða höfðu eitthvað á móti mér,“ sagði Martin í samtali við Fótbolta.net.

Bjarni Guðjónsson var þjálfari KR á þessum tíma en honum til aðstoðar voru Guðmundur Benediktsson og Henrik Bödker.

„Ég spilaði með Bjarna og ég ber mikla virðingu fyrir honum sem leikmanni. Hann var besti leikmaður sem ég spilaði með á Íslandi og það voru aldrei vandræði á milli okkar þegar við spiluðum saman,“ sagði Martin enn fremur.

Hann segir hins vegar að Bjarni hafi gengið á bak orða sinna og sagt honum fimm dögum fyrir leik að hann væri í byrjunarliðinu, sem hafi svo ekki komið á daginn.

„Það er ekki hægt að spila fyrir þannig þjálfara,“ sagði Gary Martin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×