Erlent

Reiði í Þýskalandi vegna óeirðanna í Hamborg

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump og Angela Merkel á góðri stundu um helgina.
Donald Trump og Angela Merkel á góðri stundu um helgina. Vísir/Getty
Þjóðverjar eru ósáttir og reiðir vegna þess ofbeldis sem braust út í Hamborg um helgina þegar til átaka kom á milli mótmælenda og lögreglu í Hamborg þar sem leiðtogafundur G20 ríkjanna fór fram.

Um 20 þúsund lögreglumenn voru staddir í Hamborg og máttu þeir hafa sig alla við til að halda uppi lögum og reglu vegna hundruð mótmælenda sem frömdu eignaspjöll með því að kveikja í bílum, ræna búðir og kasta eldsprengjum í áttina að lögreglumönnum.

Alls meiddust 476 lögreglumenn við störf sín í Hamborg um helgina og hlutu flestir skurðsár og brunasár. Samkvæmt upplýsingum lögreglu voru 186 manns handteknir og 225 færðir til yfirheyrslu.

Þýskir fjölmiðlar voru æfir vegna vandræðanna í Hamborg og mátti sjá fyrirsagnir líkt og „Skammarlegt fyrir Þýskaland“ á forsíðu þýska dagblaðsins Tagesspiegel. Kannanir sýna að meirihluti Þjóðverja, eða 59 prósent, telur að óeirðirnar hafi skaðað ímynd Þýskalands.

Óeirðirnar hafa komið sér afar illa fyrir Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, en hún átti sjálf þátt í að velja Hamborg sem fundarstað fyrir leiðtogafundinn. Minna en þrír mánuðir eru þar til að gengið verður til kosninga í landinu. Í Hamborg hefur allajafna verið mikil vinstrisveifla meðal íbúa og hefð fyrir róttækum stjórnmálaskoðunum.

Segir í frétt Reuters að Merkel hafi með þessum fundarstað vilja sýna leiðtogum líkt og Vladimír Pútín, Rússlandsforseta og Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseta, að skuldbinding hennar við tjáningarfrelsið væri algjört.

Forsvarsmenn þýska Sósíaldemókrataflokksins hafa harðlega gagnrýnt Merkel fyrir staðarval sitt og segja þeir að hún beri alla ábyrgð á því hvernig til hafi tekist að halda fundinn í Hamborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×