Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, sagði að með jafnteflinu gegn KA á Akureyri í dag er ljóst að FH hafi verið að afhenda Valsmönnum Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu.
FH og KA gerðu markalaust jafntefli og misstu Hafnfirðingar um leið að tækifæri til að skjótast upp í annað sæti Pepsi-deildar karla og minnka forystu Vals á toppnum í sjö stig.
„Þetta er brekka. Með þessu jafntefli þá vorum við að afhenda Valsmönnum titilinn. Ég held að það verði erfitt að ná þeim úr þessu,“ sagði Heimir í viðtali við Svein Arnarsson eftir leik. Heimir játar því að hann sé búinn að afskrifa möguleika FH á Íslandsmeistaratitlinum.
„Við erum búnir að kasta inn handklæðinu.“
Hann segir að leikurinn í dag hafi verið hægur. „Þetta gekk ekkert. Það var alltaf verið að flauta og menn að hlaupa saman. Það var ekkert tempó í þessum leik og örugglega ekki skemmtilegur leikur að horfa á.“
Hann tekur undir þá fullyrðingu að leikur FH og Vals á þriðjudag sé orðinn æfingaleikur fyrir bikarúrslitaleik FH gegn ÍBV um næstu helgi.
„Já, það er nokkuð vel orðað hjá þér. Ætli það sé ekki best að gera það svoleiðis.“
