Ísland sló England úr leik í 16-liða úrslitum á EM í sumar. Leikurinn fór fram í Nice og vann Ísland ótrúlegan 2-1 sigur með mörkum Ragnars Sigurðssonar og Kolbeins Sigþórssonar.
Englendingar hafa mikið fjallað um leikinn og hrun enska landsliðsins en eftir hann sagði Roy Hodgson starfi sínu lausu. Það fannst Lagerbäck leitt enda hafa þeir lengi þekkst. Þeir hafa þó ekki talað saman eftir leikinn.
Ekki venjulegt enskt landslið
Lagerbäck hefur aldrei tapað landsleik fyrir Englandi á ferlinum í alls sex viðureignum. En hann segir að liðið sem Ísland mætti í Nice í lok júní sé ólíkt öðrum enskum landsliðum sem Lagerbäck hefur mætt.
„Andlega var þetta ekki venjulegt enskt landslið líkt og ég mætti áður fyrr,“ sagði Lagerbäck í viðtalinu.

„Englendingar litu út fyrir að vera mjög passívir. Ég tel að stór ástæða þess var að við spiluðum mjög vel og vörðumst líka mjög vel.“
„Eftir því sem leið á leikinn misstu leikmenn Englands einbeitingu og maður sé enga skýra hugmynd um hvað þeir vildu gera. Það jókst eftir að við skoruðum annað markið.“
Engin leiðtogahæfni
Hann segir að lið Englands samanstandi að stórum hluta af ungum og efnilegum leikmönnum sem skorti þó reynslu og þroska, sem og leiðtogahæfni.
„Leikmenn eins og Dele Alli eru afar efnilegir. En þeir hafa ekki tekið út nægilegan þroska til að taka af skarið ef liðið þeirra er ekki að vinna leikinn.“
„Ég þekki ekki þessa leikmenn persónulega og er því að draga ályktanir en þannig leit það út. Það var enginn leikmaður í enska landsliðinu sem tók að sér leiðtogahlutverk eftir að við skoruðum seinna markið.“
Lagerbäck sagði að fyrir utan nokkur hálffæri í lok leiksins hafi Englendingar aldrei náð að ógna marki Íslands að verulegu ráði.
Lagerbäck fer um víðan völl í viðtalinu og fjallar meðal annars um vandræði enska landsliðsins og fá tækifæri ungra enskra leikmanna í ensku úrvalsdeildinni.