Þorvaldur Örlygsson er hættur sem þjálfari karlaliðs Keflavíkur í fótbolta eftir aðeins eitt ár í starfi. Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta.
Þorvaldur tók við liði Keflavíkur eftir að það féll úr Pepsi-deild karla síðasta haust. Undir hans stjórn endaði Keflavík í 3. sæti Inkasso-deildarinnar á nýafstöðnu tímabili.
Samhliða starfi sínu hjá Keflavík hefur Þorvaldur þjálfað U-19 ára landslið Íslands. Búist er við því að hann verði nú í fullu starfi hjá KSÍ.
Þorvaldur, sem er fimmtugur, er einn af reyndustu þjálfurum landsins. Hann var áður við stjórnvölinn hjá KA, Fjarðabyggð, Fram og HK.
