Björgun á manni sem lenti í sjálfheldu við fossinn Míganda í Gunnólfsvíkurfjalli gekk vel miðað við aðstæður og er maðurinn hólpinn. Hann var kominn niður af fjallinu og í bíl um klukkan hálf sex í morgun. Þá hafði hann verið í sjálfheldu í um 15 klukkustundir. Björgunarsveitarmenn þurftu að síga niður að manninum og fylgja honum niður af fjallinu.
Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Húsavík var maðurinn í nokkuð góðu ástandi og bar sig þokkalega.
Maðurinn hafði verið að leita að kindum þegar hann lenti í sjálfheldu, en samkvæmt RÚV var hann með tvo hunda með sér sem veittu honum félagsskap og héldu á honum hita.
Aðstæður voru leitarmönnum erfiðar á svæðinu og myrkur einnig. Tveir bátar voru fengnir til að lýsa fjallið upp af sjónum á meðan björgunarmenn athöfnuðu sig í fjallinu.
Þyrla landhelgisgæslunnar kom að björguninni en ekki var hægt að nota hana til að bjarga manninum. Alls komu um 80 manns að aðgerðunum.
Björgunin gekk vel miðað við aðstæður

Tengdar fréttir

Maður í sjálfheldu á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út manninum til aðstoðar.

Mjög erfiðar aðstæður í Gunnólfsvíkurfjalli
Aðstæður á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi þar sem maður er í sjálfheldu við fossinn míganda eru mjög erfiðar vegna myrkurs og snarbrattra hlíða fjallsins samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Þórshöfn.