Kjörstjórn í Wisconsin-ríki Bandaríkjanna hefur fengið bormlega beiðni um að framkvæma endurtalningu á atkvæðum sem féllu í forsetakosningunum fyrr í mánuðinum. Donald Trump vann nauman sigur í ríkinu. BBC greinir frá.
Jill Stein, forsetaframbjóðandi Græningja, fór fram á endurtalninguna og hefur hún heitið því að fara einnig fram á slíkt hið sama í Michigan og Pennsylvaníu en þar vann Trump einnig naumlega.
Verið er að undirbúa endurtalninguna og er reiknað með að hún hefjist í næsti viku. Stein hefur frest fram á miðvikudag í næstu viku til þess að fara fram á endurtalningu í hinum ríkjunum tveimur.
Ólíklegt þykir að endurtalningin muni breyta niðurstöðum kosninganna á afgerandi hátt. Embættismenn í Bandaríkjunum segja að ekkert bendi til þess að átt hafi verið við úrslit kosninganna í þessum ríkjum.
Formlega óskað eftir endurtalningu í Wisconsin
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
