Norska blaðið Dagbladet fullyrðir að Ísland muni spila landsleik gegn Noregi í Ósló skömmu fyrir EM í Frakklandi í sumar. Fótbolti.net greindi frá þessu í morgun.
Samkvæmt fréttinni verður leikurinn á milli 30. maí og 7. júní en samkvæmt heimildum Vísis vonast forráðamenn Knattspyrnusambands Íslands til þess að spila tvo landsleiki á þessum dögum.
KSÍ hefur ekki gefið út hvaða liðum Ísland mætir í vor en vonir standa til að fyrri leikurinn af þessum tveimur fari fram á Laugardalsvelli - hinn á útivelli. Samkvæmt því er líklegt að leikurinn gegn Noregi verði síðasti leikur Íslands fyrir EM, ef fréttir Dagbladet reynast réttar.
Ísland mætir tveimur liðum í mars en aðeins hefur verið gefið út að Ísland mætir Grikklandi ytra þann 29. mars.
Noregur komst í umspil um sæti á EM í Frakklandi en tapaði fyrir Ungverjalandi, sem er með Íslandi í riðli á mótinu í sumar.

