KR-ingar tryggðu sér áfram í aðra umferð forkeppni Evrópudeildarinnar með sögulegum hætti í gær.
KR vann þá 6-0 sigur á norður-írska félaginu Glenavon á Mourneview Park í Lurgan en KR hafði "bara" unnið heimaleikinn 2-1. Þetat voru einmitt tveir fyrstu leikir Willums Þórs Þórssonar með liðið.
KR vann þar með 8-1 samanlagt og mætir Grasshopper frá Sviss í næstu umferð. Fyrri leikurinn er á heimavelli Grasshopper í næstu viku.
KR-ingar slógu tvö met með þessum stórsigri í gærkvöldi. Þetta var ekki aðeins stærsti útisigur íslensks liðs í Evrópukeppni heldur einnig stærsti sigurinn í Evrópukeppni.
Fyrir þennan sex marka sigur KR-inga í gærkvöldi hafði íslensku liði ekki tekist að vinna Evrópuleik með meira en fjögurra marka mun.
Níu liðum hafði tekist að vinna með fjögurra marka mun í Evrópukeppni og þar á meðal var KR. Hin voru ÍA (2), Stjarnan (2), Breiðablik, Þór Akureyri, FH og Keflavík.
Stærsti sigur KR í Evrópukeppni fyrir leikinn í gærkvöldi var 5-1 sigur liðsins á færeyska liðinu ÍF frá Fuglafirði 30. júní 2011. Sá sigur vannst á KR-vellinum en KR hafði unnið fyrri leikinn 3-1 á útivelli.
Einn KR-ingur náði að skora í þessum báðum metsigrum KR-liðsins í Evrópu. Óskar Örn Hauksson skoraði fimmta og síðasta markið á móti ÍF Fuglafirði 2011 og hann gerði einnig fimmta markið á móti Glenavon í gær.
Þrjú félög áttu metið yfir stærsta útisigra í Evrópukeppni en það eru Keflavík (4-0 sigur á Etzella frá Lúxemborg árið 2005), FH (5-1 sigur á Grevenmacher frá Lúxemborg árið 2008) og Stjarnan (4-0 sigur á Bangor City frá Wales árið 2014).
