Fótbolti

Santos um markvörslu Hannesar: Nani veit ekki enn hvernig hann varði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Santos á blaðamannafundi.
Santos á blaðamannafundi. vísir/getty
Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgals, segir að hans menn geti sjálfum sér um kennt fyrir að vinna ekki Ísland í kvöld.

„Ísland kom okkur ekki á óvart en við vorum í vandræðum fyrstu tíu mínúturnar. Sérstaklega í markspyrnum þeirra og við áttum í vandræðum með að stjórna leiknum,“ sagði Santos á blaðamannafundi í kvöld.

„Þeir eru hættulegir í löngum spyrnum og eiga framherja [Kolbein] sem reynir að skalla boltann. Leikmenn berjast svo um seinni boltann. En þegar við stöðvuðum þetta þá náðum við að stjórna leiknum.“

„Við þurftum að vera grimmari í að sækja á milli línanna. Við spiluðum stundum vel og stundum ekki. Það var okkur að kenna að vera ekki í betri stöðu eftir fyrri hálfleikinn.“

Santos lagði áherslu á við sína menn í hálfleik að vera grimmari í sínum aðgerðum en Birkir kom þeim svo í opna skjöldu með marki sínu.

„Við hefðum getað varist fyrirgjöfinni betur. En við náðum að berjast til baka. Við fengum færi og góð færi þar að auki. Það er okkur að kenna að við skoruðum ekki.“

„Við hefðum átt að vera rólegri síðustu tíu mínúturnar. Við vorum fullákafir. Við reyndum að skora því við vildum vinna. Vonbrigðin eru mikil en markmið okkar er enn það sama. Næsti leikur er á laugardaginn og hann viljum við vinna.“

Portúgal mætir þá Austurríki í afar þýðingamiklum leik enda tapaði Austurríki fyrir Ungverjalandi í dag.

„Þetta verður leikur sem mun hafa mikil áhrif. Það bjuggust allir við sigrum Portúgals og Austurríkis í dag. En það er ekki það sem gerðist og ég var búinn að segja að þetta væri flókinn riðill.“

Hannes átti frábæra markvörslu frá Nani snemma í leiknum sem Hannes Þór Halldórsson varði.

„Nani veit ekki enn hvernig markvörður Íslands fór að því að verja frá honum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×