Innlent

Hlýjasta ár frá upphafi

Svavar Hávarðsson skrifar
Horfur eru á að árið 2016 verði það hlýjasta í Stykkishólmi frá upphafi veðurmælinga árið 1846. Aðeins lokayfirferð gagna getur breytt þeirri mynd sem er ólíklegt.

Sama er uppi á teningnum í öðrum landsfjórðungum, kemur fram í umfjöllun Veðurstofu Íslands. Tíðarfar 2016 var lengst af hagstætt, jafnvel mjög hagstætt og er árið eitt hið hlýjasta sem vitað er um hér á landi.

Meðalhiti í Reykjavík er sex stig og hefur aldrei verið marktækt hærri, reiknaðist þó 6,1 stig árið 2003. Á Akureyri er meðalhitinn um 4,9 stig og hefur aðeins þrisvar verið hærri, síðast 2014.

Fyrstu tveir mánuðir ársins voru heldur kaldari en venjulegast hefur verið á undanförnum árum og því var lengi vel talið ólíklegt að árið í heild yrði jafn hlýtt og raun ber vitni. Með marsmánuði hlýnaði og síðustu mánuðir ársins voru sérstaklega hlýir, ekki síst metmánuðurinn október.

Í umfjöllun Veðurstofunnar segir einnig að um landið sunnanvert hafi úrkoma lengst af verið undir meðallagi fyrstu átta mánuði ársins, en síðustu mánuðirnir urðu aftur á móti mjög úrkomusamir, sérstaklega október. Úrkoma í Reykjavík varð um 15 prósent ofan meðallags á árinu í heild. Á Akureyri var ársúrkoma um fjórðungi ofan meðallags.

Vindhraði var undir meðallagi í flestum mánuðum og illviðri færri en algengast er. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×