Enski boltinn

Zlatan telur Lindelöf tilbúinn í að spila fyrir United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan getur haldið í höndina á Lindelöf fyrstu vikurnar í Manchester.
Zlatan getur haldið í höndina á Lindelöf fyrstu vikurnar í Manchester. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic, framherji Manchester United, telur fyrrverandi samherja sinn í sænska landsliðinu, Victor Lindelöf, tilbúinn í að spila fyrir stórlið eins og Manchester United en miðvörðurinn ungi virðist vera á leiðinni á Old Trafford.

Enskir miðlar fullyrða að Manchester United og portúgalska stórliðið Benfica hafi komist að samkomulagi um 38 milljóna punda (5,3 milljarða króna) kaup enska félagsins á Lindelöf sem gekk í raðir Benfica frá Västerås í Svíþjóð fyrir fjórum árum.

Benfica er sagt hafa verið hikandi fyrst um sinn að selja miðvörðinn þar sem liðið komst áfram í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar en verðmiðinn sé einfaldlega of heillandi fyrir Portúgalana.

Lindelöf kom 18 ára gamall til Benfica og spilaði 97 leiki fyrir B-lið Benfica áður en hann fékk fyrst tækifæri með aðalliðinu í fyrra, 21 árs gamall. Hann hefur spilað 28 deildarleiki í Portúgal og ellefu landsleiki og er samkvæmt kaupverðinu fimm milljarða virði.

„Hann er vaxandi leikmaður. Hann ber mikla ábyrgð hjá sænska landsliðinu í dag,“ segir samlandi hans og stjörnuframherji Manchester United, Zlatan Ibrahimovic, um Lindelöf.

„Er hann nógu góður fyir United? Ég tel hann tilbúinn í að spila fyrir stórlið. Það er svo undir komið hvað hann gerir. Hvað sem hann kýs að gera verður það gott fyrir hann. Ég veit að hann er heit vara þessa dagana þannig leyfum honum að ráða hvert hann fer næst,“ segir Zlatan Ibrahimovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×