Innlent

Metár í sölu sannra gjafa hjá Unicef

Þorgeir Helgason skrifar
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Unicef.
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Unicef. vísir/valli
„Undanfarin tvö ár höfum við séð mikla aukningu í kaupum á sönnum gjöfum. Í fyrra voru keyptar gjafir fyrir rúmar þrettán milljónir og við erum alveg viss um að við höfum selt fyrir meira í ár,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi.

Sannar gjafir eru lífsnauðsynleg hjálpargögn fyrir bágstödd börn víðsvegar um heiminn. Hlý teppi, námsgögn, bóluefni og vatnsdælur eru á meðal þeirra hjálpargagna sem hægt er að gefa til bágstaddra samfélaga.

„Við hjá Unicef störfum í 190 löndum og komum bágstöddum börnum og fjölskyldum þeirra til aðstoðar í 160 af þeim. Í fyrra sendum við til dæmis moskítónet til Kúbu og næringarmjólk til Nepals,“ segir Bergsteinn.

Hann segir sannar gjafir vera sniðugt tækifæri fyrir fólk sem er að leita að tækifærisgjöfum yfir árið. Oftast sé um jólagjafir að ræða en þær séu einnig vinsælar í jólavinaleikjum og að foreldrar gefi börnum sínum þær í skóinn. Bergsteinn bendir á að hægt sé að gefa sannar gjafir allan ársins hring fyrir hvers konar tilefni, hvort sem er fyrir jól, hjónavígslur, afmæli eða fermingar.

Gjafirnar koma í öllum stærðum og gerðum og eru í öllum verðflokkum. Gjafabréf fylgir kaupum á hjálpargögnum þar sem hægt er að skrifa persónulega kveðju sem svo er send viðtakanda gjafarinnar hér á Íslandi. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.