Innlent

Rjúpnaskyttan skar áður bensíndælur í sundur en hvetur nú til viðskipta við Olís

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Friðrik Rúnar var uppnefndur bensíndælumaðurinn eftir uppátækið.
Friðrik Rúnar var uppnefndur bensíndælumaðurinn eftir uppátækið.
Friðrik Rúnar Garðarsson, rjúpnaskyttan sem var bjargað úr óbyggðum á Austurlandi fyrr í haust, kemur fram í nýju myndbandi hjá Olís þar sem hann sést dæla bensíni á bíl sinn. Olís stendur fyrir átaki dagana 28. og 29. desember en fimm krónur af hverjum bensínlítra renna til björgunarsveitanna.

„Mér finnst þetta það allra minnsta sem ég get gert til þess að sýna mitt þakklæti í garð björgunarsveitanna,“ segir Friðrik í myndbandinu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem nafn Friðriks Rúnars er bendlað við bensínstöðvar. Friðrik var kallaður „bensíndælumaðurinn“ í fyrirsögn greinar sem birtist í Stúdentablaðinu árið 2004 en þar var hann í viðtali vegna skemmdarverka Friðriks á fjölda bensíndæla á höfuðborgarsvæðinu vorið 2001.

Skemmdarverkin voru þó ekki tilefnislaus en hann framdi þau í mótmælaskyni til þess að vekja athygli á verðsamráði olíufélaganna. Hann var á þessum tíma nemi við Menntaskólann í Reykjavík en kominn í læknanám við Háskóla Íslands þegar hann veitti viðtalið.

„Ég fór í símaskrána og fann hvar allar Essostöðvarnar voru staðsettar, skipulagði leið vestan úr bæ og upp í Grafarvog, fór á hverja bensínstöð og klippti bara dæluhausinn af einni 98 oktana dælu á hverjum stað. Ég man ekki alveg nákvæmlega hvað þær voru margar en ætli þær hafi ekki verið um það bil tíu,“ sagði Friðrik Rúnar í viðtalinu við Stúdentablaðið.

Að neðan má sjá upptöku frá 2001 úr safni Stöðvar 2 þar sem fylgst var með Friðriki Rúnari skila dælunum til Esso.

Friðrik, sem var handtekinn í kjölfar verknaðarins, lét fjölmiðla vita af uppátækinu á sínum tíma og var meðal annars útnefndur „hálfviti vikunnar“ á útvarpsstöðinni X-inu af Sigmari Guðmundssyni sem þá var útvarpsmaður stöðvarinnar. „Simmi útnefndi mig hálfvita vikunnar fyrir framtak mitt á sínum tíma en ég spyr Simma bara hver sé hálfviti núna?,“ sagði Friðrik og vísar til þess að olíufélögin voru dæmd til hárrar sektar vegna samráðs í október 2004. 

Í viðtalinu segir Friðrik að hann hafi gjarnan verið uppnefndur „bensíndælumaðurinn“ eða „slöngutemjarinn“ vegna uppátækis síns.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×