Innlent

Mikið tilfinningatjón fyrir alla bæjarbúa

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Vísir/Andri Marinó
„Maður er bara að átta sig á þessu enn þá,“ segir Kapítóla Rán Jónsdóttir, sem rekur Grillskála N1 á Þórshöfn á Langanesi, en skálinn brann til kaldra kola í nótt. Um er að ræða einu bensínstöðina á Þórshöfn og eru næstu stöðvar á Bakkafirði eða Raufarhöfn. Kapítóla segir alls óvíst hvert framhaldið verður.

„Sjoppan er bara brunnin og allt sem henni tengist og svolítið óráðið hvert framhaldið verður. En það er ljóst að þetta er altjón,“ segir hún. „Þetta var vissulega áfall og líka fyrir alla bæjarbúa enda sjoppan búin að vera þarna í fimmtíu ár.“

Kapítóla fékk símtal frá föður sínum, sem rekur verslunina með henni, á fjórða tímanum í nótt, en þá var hann á leiðinni á staðinn. Eldurinn var mikill og lagði þykkan svartan reyk yfir byggðarlagið. Reykurinn var svo mikill að björgunarsveitarmenn voru fengnir til þess að ganga í nálæg hús og rýma þau ef þurfa þætti og til að segja fólki að loka gluggum.

Aðspurð segir Kapítóla þetta mikið tilfinningatjón, en að sögn íbúa var skálinn samfélaginu mikils virði, því hann hafi einnig þjónað tilgangi eins konar félagsmiðstöðvar í byggðarlaginu. „Það er það. Ekki spurning.“

Þórarinn Þórisson, slökkviliðsstjóri á Þórshöfn, segir í samtali við fréttastofu að sprengihætta hafi myndast um tíma, en að engan hafi sakað. Slökkvistarf hafi gengið vel en að húsið sé gjörónýtt.


Tengdar fréttir

Bensínstöð brann á Þórshöfn

Grillskáli N-1 á Þórshöfn á Langanesi gjöreyðilagðist í eldi í nótt. Eldsins varð vart rétt fyrir klukkan fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×