Erlent

Rússneski sendiherrann er látinn

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. visir/getty
Andrei Karlov, sendiherra Rússa í Tyrklandi, er látinn eftir skotárás. Fréttastofa Reuters greindi frá tíðindunum rétt í þessu. Skotið var á hann á listasafni í höfuðborg Tyrklands, Ankara, er hann flutti ræðu við opnun ljósmyndasýningar.

Auk Karlovs særðust að minnsta kosti þrír í árásinni.

Ekki liggur enn fyrir hver ber ábyrgð á verknaðinum en árásin náðist á myndband. Þar sést hvernig jakkafataklæddur karlmaður skýtur Karlov nokkrum skotum í bakið, beinir skotvopninu svo að viðstöddum og hrópar: „Ekki gleyma Sýrlandi, ekki gleyma Aleppo. Á meðan fólkið þar er ekki öruggt, verðið þið ekki örugg.“

BBC greinir frá því að lögregla hafi skotið árásarmanninn til bana. 

Rússar og Tyrkir hafa verið viðriðnir átökin í Sýrlandi undanfarin misseri. Rússar hafa stutt forseta Sýrlands, Bashar al Assad á meðan Tyrkir hafa tekið afstöðu gegn honum.

Uppfært kl. 17:45

Fjölmiðlar í Tyrklandi hafa greint frá nafni árásarmannsins. Hann hét Mevlüt Mert Altıntaş og var tyrkneskur óeirðalögregluþjónn. 










Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×