Innlent

Brattahlíð Eiríks rauða var þar sem bratta fjallið er

Kristján Már Unnarsson skrifar
Danskur fornleifafræðingur telur að landnámsjörð Eiríks rauða á Grænlandi sé ranglega staðsett í dag og að Brattahlíð hafi staðið innar við hinn forna Eiríksfjörð. Fjallað var um málið í þættinum Landnemarnir á Stöð 2. 

Á Íslandi efast menn ekki um að Skálholt í dag sé það sama og fyrsti biskupinn sat, Eyjafjörður og Kristnes séu þau sömu og Helgi magri nam, og að Bergþórshvoll sé sá sami og í Njálssögu enda tryggði órofin byggðasaga á Íslandi að vitneskjan um örnefnin færðist á milli kynslóða.

Í fornum lýsingum frá norrænu byggðinni á Grænlandi er getið fjölda örnefna. Menn hafa með ýmsum ráðum reynt að staðsetja mörg þeirra þótt vitneskjan hafi glatast þegar þjóðin hvarf. Það er helst að örnefni eins og Hvítanes geti bent á sjálft sig.

Þetta hefur raunar verið ráðgáta sem fræðimenn hafa glímt við í nærri þrjúhundruð ár. Lengi vel töldu menn að Brattahlíð hafi verið þar sem nú er þorpið Igaliku en svo fannst biskupsgröf sem sannfærði menn um að þar hafi verið biskupsetrið Garðar. Þá þurfti að finna Brattahlíð nýjan stað og varð niðurstaðan þar sem nú er þorpið Qassiarsuk.

Horft yfir þann stað sem í dag er talinn hafa verið Brattahlíð, landnámsjörð Eiríks rauða. Deilt er um hvort þetta sé rétti staðurinn.Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.
Fornleifafræðingurinn Ole Guldager er meðal þeirra sem efast um að það sé hin rétta Brattahlíð. Hann telur að örnefnið sjálft sé vísbending og spyr hvar brattinn sé í hinni opinberu Brattahlíð. 

„Þar er engin brött hlíð, en hér er hana að finna,“ segir Ole um leið og hann bendir á annan stað við hinn forna Eiríksfjörð. 

„Þegar maður siglir hér inn fjörðinn sér maður bratta hlíð fjallsins.“ 

Fjallið bratta. Ole Guldager telur að Brattahlíð hafi staðið á grundunum undir þessu fjalli.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Ole telur að bær Eiríks rauða hafi staðið nær fjarðarbotni og dregið nafn sitt af bröttu fjalli þar fyrir ofan. 

„Fjallið þarna, sem stendur fyrir ofan rústirnar, tel ég að sé hið forna Brattahlíðarfjall,“ segir Ole. 

Í þættinum Landnemarnir mátti heyra hann færa frekari rök fyrir skoðun sinni en þar var jafnframt grafist fyrir um það hversvegna norræna þjóðin á Grænlandi hvarf.

Næsti þáttur Landnemanna er á dagskrá mánudaginn 2. janúar. Hann ber titilinn Leifur heppni og fjallar um Vínlandsferðirnar.


Tengdar fréttir

Landnemarnir sigla áfram til Grænlands og Vínlands

Landnám Íslendinga á Grænlandi með siglingu Eiríks rauða árið 985 og dularfullt hvarf norrænu þjóðarinnar um 500 árum síðar er meðal þess fjallað verður um í þáttaröðinni "Landnemarnir“ sem heldur áfram á Stöð 2 í vetur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.