Menning

Landnemarnir sigla áfram til Grænlands og Vínlands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Landnám Íslendinga á Grænlandi með siglingu Eiríks rauða árið 985 og dularfullt hvarf norrænu þjóðarinnar um 500 árum síðar er meðal þess fjallað verður um í þáttaröðinni „Landnemarnir“ sem heldur áfram á Stöð 2 í vetur. Myndin að ofan var tekin við Hvalseyjarkirkju þegar Stöðvar 2-menn voru þar við upptökur. Þeir Eiríkur Hilmisson hljóðmaður og Friðrik Þór Halldórsson kvikmyndatökumaður standa fyrir framan kirkjuna en síðustu fréttir af norrænu byggðinni á Grænlandi eru frá brúðkaupi þar árið 1408. Síðan hefur ekkert spurst til fólksins.

Viðfangsefni þáttanna er sem fyrr; upphaf Íslandssögunnar og rætur íslensku þjóðarinnar. Í þeim verða fleiri leyndardómar landnámssögunnar krufðir. Fjallað verður um eitt mesta siglingaafrek norrænna manna; landafundina á meginlandi Ameríku, sjálfa Vínlandsgátuna. Frægustu fornminjar eftir víkinga sem fundist hafa í Kanada verða heimsóttar.

Myndefnis í þættina var aflað víða. Hér er Egill Aðalsteinsson að kvikmynda bæinn Kvam við Aurlandsfjörð í Sogni í Noregi. Kenningar eru um að þaðan hafi Auður djúpúðga verið ættuð og þessvegna valið landnámsbæ sínum i Dölum nafnið Hvamm.Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.
Fyrri hlutinn, ellefu þættir, var sýndur síðastliðinn vetur en síðari hlutinn hefst á morgun, mánudag, 14. nóvember. Í næstu níu þáttum verða einnig sögustaðir heimsóttir í öllum landsfjórðungum Íslands, rýnt í frásagnir af landnámshöfðingjum og spurt hvernig nýtt samfélag gat orðið til á Íslandi á undraskömmum tíma. Greint verður frá umdeildum en heillandi kenningum um að forn dulspeki hafi verið ráðandi þáttur í landnáminu. 

Þátturinn í kvöld verður sýndur klukkan 19.55, á eftir viðtalsþætti 60 Minutes við Donald Trump, og ber undirtitilinn Höfðingarnir. Rýnt verður í sögu nokkurra stórhöfðingja íslensku landnámssögunnar, manna eins og Ingimundar gamla, Helga magra, Hrollaugs Rögnvaldssonar, Ólafs tvennumbrúna og Ketils hængs. Flestir hröktust úr fyrri heimkynnum til Íslands. Þar numu þeir stór héruð og gerðust landnámshöfðingjar. 

Víkingurinn „Ólafur tvennumbrúni" kvikmyndaður á víkingaskipi á vatni á Lófóten. Þar kennir hann norskum skólabörnum sögu eins af landsnámsmönnum Íslands.Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.
En voru sumir höfðingjanna bara örnefni og aldrei til, eins og Dýri í Dýrafirði? 

Hér má sjá kynningarstiklu þáttanna.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.