Erlent

Játa þátt kaþólsku kirkjunnar í þjóðarmorðunum 1994 í Rúanda

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Höfuðkúpur margra sem slátrað var árið 1994 eru nú geymdar á safni í Kigali, höfuðborg Rúanda, sem geymir ýmsa muni tengda þjóðarmorðunum.
Höfuðkúpur margra sem slátrað var árið 1994 eru nú geymdar á safni í Kigali, höfuðborg Rúanda, sem geymir ýmsa muni tengda þjóðarmorðunum. vísir/getty
Forstöðumenn kaþólsku kirkjunnar í Rúanda hafa beðist afsökunar á þætti hennar og gjörðum kristinna manna í þjóðarmorðunum sem áttu sér stað þar í landi árið 1994. Þetta kemur fram í frétt á vef Al-Jazeera.

Í yfirlýsingu frá biskupum kirkjunnar, sem birtist í dag, var viðurkennt að meðlimir hennar hefðu lagt á ráð um og tekið þátt í að myrða meira en 800 þúsund Tútsía og Hútúa. Flestir vígamannanna voru öfgamenn úr hópi Hútúa.

„Við biðjumst afsökunar á öllu því ranga sem kirkjan átti þátt í. Við biðjumst afsökunar fyrir hönd allra kristinna manna. Það er okkur mikill harmur að meðlimir kirkjunnar hafi brotið gegn hollustu sinni við boðorð Guðs,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Margir, sem sluppu lifandi úr hörmungunum, báru vitni um að klerkar, prestar, nunnur og aðrir þjónar kirkjunnar hefðu tekið þátt í morðunum. Í skýrslum, sem unnar hafa verið af yfirvöldum í landinu, kemur meðal annars fram að kirkjunnar menn hafi banað fólki sem leitaði náðar í húsum Guðs.

Þjóðarmorðin áttu sér stað fyrir rúmum tuttugu árum eftir að þáverandi forseti landsins, Hútúinn Juvénal Habyarimana, lést í flugslysi. Kirkjan hefur löngum neitað þætti sínum í þjóðarmorðunum og hefur hingað til borið því við að böðlarnir hefðu tekið sjálfir upp á ósómanum.

„Fyrirgefið okkur þessa hræðilegu hatursglæpi sem áttu sér stað í landinu og hatrið sem við sýndum fólki af öðrum ættbálkum. Í stað þess að vera ein fjölskylda gripum við til vopna og morða,“ segir í yfirlýsingunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.