Norska öryggislögreglan PST handtók í morgun írakska íslamistann mulla Krekar eftir að hæstiréttur landsins hafði hafnað kröfu hans um endurupptöku á máli hans þar sem norskur dómstóll hafði úrskurðað að hægt væri að framselja hann frá Noregi til Ítalíu. NRK greinir frá.
Hinn sextugi Krekar er grunaður um að vera leiðtogi í hryðjuverkasamtökunum Rawti Shax sem var með starfsemi í fjölda evrópskra ríkja. Krekar sjálfur hefur sjálfur sagt að um stjórnmálasamtök hafi verið að ræða og krefst þess að verða sleppt.
Lögregla á Ítalíu hefur sakað Krekar, sem heitir Najmuddin Faraj Ahmad réttu nafni, um að hafa skipulagt hryðjuverk í Noregi og fleiri ríkjum álfunnar og hefur viljað fá hann framseldan. Eftir dóm hæstaréttar Noregs í morgun er talið líklegt að svo verði.
Krekar kom frá Írak og til Noregs sem flóttamaður árið 1991. Til stóð að honum yrði vísað úr landi árið 2003 og aftur 2007, þar sem hann er talinn vera ógn við þjóðaröryggi, en hann er enn í Noregi þar sem yfirvöld þar telja sig ekki geta tryggt að hann hljóti ekki dauðadóm í heimalandi sínu Írak.
Krekar hefur verið á lista Sameinuðu þjóðanna yfir grunaða hryðjuverkamenn frá árinu 2006.
