Erlent

Brottvísun til Íraks rædd

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Krekar Í Noregi þykja öfgaskoðanir hans ýmist ógnvekjandi eða hlægilegar.fréttablaðið/EPA
Krekar Í Noregi þykja öfgaskoðanir hans ýmist ógnvekjandi eða hlægilegar.fréttablaðið/EPA
Norsk stjórnvöld hafa átt í viðræðum við stjórnvöld í Írak um það hvort hægt verði að senda öfga-íslamistann múlla Krekar þangað frá Noregi. Til þessa hefur ekki þótt óhætt að senda hann þangað af ótta við að hann kynni að verða dæmdur til dauða þar í landi.

Að sögn dagblaðsins Verdens Gang hefur Jøran Kallmyr, aðstoðarráðherra í norska dómsmálaráðuneytinu, verið í Írak undanfarið til að finna lausn á þessu.

Krekar, sem heitir Nadsjmúddín Faradsj Ahmad, var á fimmtudagskvöldið handtekinn eina ferðina enn fyrir hótanir og fyrir að hvetja fólk til afbrota. Þetta gerðist eftir að norska ríkissjónvarpið birti langt viðtal við hann, þar sem hann sagðist telja mennina sem réðust á ritstjórnarskrifstofur franska skoptímaritsins Charlie Hebdo í París nýverið vera hetjur. Þeir myrtu tólf manns, þar á meðal nokkra helstu skopteiknara blaðsins.

Hann segir skopteiknara, sem hafi teiknað skopmyndir af Múhameð spámanni, vera réttdræpa:

„Af því hann hefur ráðist á gildi okkar, siðareglur okkar og trú, þá á hann að deyja,“ sagði Krekar, en tók þó fram að ekki mætti nota sprengjur sem gætu valdið dauða saklausra.

Krekar var fyrir fáum vikum látinn laus úr fangelsi eftir að hafa afplánað dóm fyrir sömu sakir: að hafa haft í hótunum við Ernu Solberg forsætisráðherra og fleiri ráðamenn.

Leiðtogar múslima í Noregi og víðar segja fráleitt að málflutningur hans njóti trúverðugleika meðal íslamskra fræðimanna.

Í viðtali við norska ríkisútvarpið segir sænski teiknarinn Lars Vilks, sem líklega var helsta skotmark morðárásar í Kaupmannahöfn fyrr í mánuðinum, að hótanir á borð við þær, sem Krekar hefur í frammi, séu að verða æ algengari: „Það eru margir sem leggjast á sveif með Krekar.“

Danski skopteiknarinn Kurt Westergaard, sem teiknaði eina af skopmyndunum af Múhameð sem birtust í dagblaði árið 2006, segist gjarnan vilja hitta Krekar. „Hann er velkominn í heimsókn til mín,“ hefur norska útvarpið eftir honum. „Eða við gætum hist í mosku til að spjalla.“

Norski teiknarinn Per Elvestuen segir múlla Krekar alls ekki vekja hjá sér ótta: „Nei. Múlla Krekar er ríkistrúður. Allt hans framferði er skammarlegt í hvaða samhengi sem er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×