Enski boltinn

Fyrrum leikmaður Man City og Leeds misnotaður af þjálfara þegar hann var unglingur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
White skoraði 79 mörk í 286 deildarleikjum fyrir Manchester City.
White skoraði 79 mörk í 286 deildarleikjum fyrir Manchester City. vísir/getty
David White, fyrrverandi leikmaður Manchester City, Leeds United og Sheffield United, hefur stigið fram og greint frá því að hann var misnotaður af þjálfara sínum þegar hann var unglingur.

Í síðustu viku steig Andy Woodward fram og tjáði sig um misnotkun sem hann varð fyrir af hendi Barry Bennell, fyrrum þjálfara hjá Crewe, þeim sama og misnotaði White.

Í gær tjáði Steve Walters, fyrrum leikmaður Crewe, sig um að Bennell hefði misnotað hann. Fyrr í dag steig Paul Stewart, fyrrverandi leikmaður Tottenham Hotspur og Liverpool, fram og greindi frá því hann hefði verið misnotaður af þjálfara sínum er hann var unglingur. Og nú rétt í þessu bættist White í þennan hóp. Þrír af þeim fjórum sem hafa stigið fram á síðustu dögum voru misnotaðir af Barry Bennell, þekktum barnaníðingi.

David White lék einn A-landsleik fyrir England.vísir/getty
„Vegna ýmissa ástæðna hélt ég þessu leyndu í nærri tvo áratugi,“ sagði hinn 49 ára gamli White sem hefur skrifað bók um misnotkunina sem hann varð fyrir.

„Ég tek hatt minn ofan fyrir Andy Woodward, Steve Walters og Paul Stewart fyrir hugrekki þeirra að koma fram,“ sagði White.

„Ofbeldið sem þeir og aðrir urðu fyrir var mun alvarlegra og stóð lengur yfir en hjá mér og ég er ekki viss um að ég hefði sýnt sama hugrekki og þeir.“

White var misnotaður af Bennell, sem hann leit mikið upp til, þegar hann var 11 ára.

White hóf feril sinn hjá Manchester City og lék með liðinu til ársins 1993 þegar hann gekk í raðir Leeds. Árið áður lék hann sinn fyrsta og eina A-landsleik fyrir England.

White náði sér ekki á strik hjá Leeds, var mikið frá vegna meiðsla og fór til Sheffield United 1995. Hann lagði skóna á hilluna tveimur árum síðar vegna meiðsla.

Hinn 62 ára gamli Bennell var dæmdur í níu ára fangelsi fyrir barnaníð 1998. Í maí í fyrra fékk hann svo annan fangelsisdóm fyrir að misnota 12 ára gamlan dreng á fótboltavelli í Macclesfield.


Tengdar fréttir

Þjálfarinn minn misnotaði mig

Paul Stewart, fyrrum leikmaður Tottenham og Liverpool, steig fram í dag og upplýsti að hann hefði verið misnotaður kynferðislega af þjálfaranum sínum er hann var unglingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×