Erlent

Baráttan um Mosul: Telja sig hafa umkringt ISIS

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mjög er nú sótt að vígamönnum ISIS í Mosul.
Mjög er nú sótt að vígamönnum ISIS í Mosul. Vísir/Getty
Hersveitir Íraka segjast hafa ná yfirráðum yfir einum af mikilvægusta veginum sem liggur að Mosul, höfuðvígi hryðjuverkasamtakanna ISIS þar í landi. BBC greinir frá.

Með því telja hersveitir sem berjast gegn ISIS í Írak sig hafa umkringt hersveitir ISIS í Mosul, þrátt fyrir að vígamenn samtakanna fari enn með yfirráð yfir vegakaflann á milli bæjarins Tal Afar og Mosul.

Loftárásir hafa verið gerðar í kringum Mosul og nú er aðeins brú eftir yfir ánna Tigris sem rennur í gegnum borgina. Reikna má með að hart verði barist um hana eftir því sem hersveitir sem berjast gegn ISIS nálgast borgina.

Um 50 þúsund hermenn á vegum írakska hersins, Kúrda og annarra hersveita sækja nú að Mosul en sókn þeirra hefur nú staðið yfir í um fimm vikur. Talið er að um fimm til sex þúsund vígamenn ISIS séu enn í borginni og selja þeir sig dýrt í baráttunni við hersveitir andstæðinga sinna.

Um 1,5 milljón manns býr í borginni en samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum hafa um 70 þúsund borgarar flúið borgina frá því að sóknin gegn ISIS í Mosul hófst.

 


Tengdar fréttir

Mæta harðri mótspyrnu í Mosul

Mótspyrna vígamanna verður sífellt sterkari eftir því sem írakskar sveitir sækja dýpra í borgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×