Erlent

Grunar að um hryðjuverk hafi verið að ræða

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Ohio.
Frá Ohio. Vísir/AFP
Lögreglan í Ohio í Bandaríkjunum grunar að mögulega hafi verið um hryðjuverka að ræða í dag, þegar ungur maður ók bíl inn í hóp af fólki og særði níu með hnífi. Einn er alvarlega særður. Árásarmaðurinn, Abdul Razak Ali Artan, fæddist í Sómalíu  en var löglega í Bandaríkjunum.

Árásin átti sér stað á lóð Ohio State háskólans.

Lengi vel var talið að um skotárás hefði verið að ræða, en það kom fram á opinberum Twitter reikningi skólans. Það reyndist þó ekki rétt en árásarmaðurinn var skotinn til bana af lögreglu.

Vitni sem AP fréttaveitan ræddi við segja árásarmanninn ekki hafa sagt orð á meðan hann réðst á fólkið. Lögregluþjónninn sem skaut Ali Artan var staddur á skólalóðinni fyrir tilviljun þar sem hann hafði verið kallaður út vegna gasleka. Hann skaut Ali Artan innan við mínútu eftir að árásin hófst.

Undanfarna mánuði hafa áhyggjur aukist ytra vegna ákalls hryðjuverkasamtaka eins og Íslamska ríkisins til fylgismanna sinna um að þeir geri árásir sem þessar í heimalöndum sínum. 

Sjá einnig: Hafa lengi kallað eftir árásum af þessu tagi

Í september stakk ungur maður frá Sómalíu tíu manns í verslunarmiðstöð í Minnesota. Hann var sagður hafa spurt fórnarlömb sín hvort þau væru múslímar áður en hann réðst á þau. Sá var skotinn til bana af lögregluþjóni sem var ekki á vakt og var í verslunarmiðstöðinni fyrir tilviljun.

Sambærilegar hnífaárásir og annars konar árásir hafa einnig verið gerðar í borgum í Evrópu eins og London og París.

Í myndbandinu að neðan ræða nemendur við Ohio State upplifun sína við fréttamann AP.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×