Erlent

Ekki horfa, hjálpaðu

Samúel Karl Ólason skrifar
Nærri því hálf milljón barna í fjórum ríkjum Afríku eru í lífshættu vegna vannæringar. Verði ekkert gert er talið að nærri því 75 þúsund börn muni deyja í norðurhluta Nígeríu, eða rúmlega 200 á dag.

UNICEF á Íslandi hefur neyðarsöfnun undir heitinu Ekki horfa, hjálpaðu, í dag vegna ástandsins.

Hin 16 ára gamla Una Torfadóttir tók þátt í átaki UNICEF.

„Þessar hörmungar hafa farið hljótt, þrátt fyrir það hversu umfangsmiklar og alvarlegar þær eru. Tíminn er naumur og mikið undir. Góðu fréttirnar eru þær að með réttri meðhöndlun ná langflest vannærð börn sér á einungis nokkrum vikum,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í tilkynningu.

Mynd/UNICEF
„Við hjá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, höfum þá reynslu og þekkingu sem þarf til að bjarga lífi vannærðra barna á svæðinu. Við leggjum einnig ríka áherslu á að ná til barna áður en þau verða veik.“

Ástæða neyðarinnar er meðal annars skortur á uppskeru, hækkandi matvælaverð og stórfelldur fólksflótti vegna árása vígahreyfingarinnar Boko Haram. Löndin sem um ræðir eru Nígería, Tsjad, Níger og Kamerún en svæðið er eitt það fátækasta í heimi.

Barn sem þjáist af alvarlegri bráðavannæringu er níu sinnum líklegra til að deyja af völdum sjúkdóma en önnur börn sem veikjast, til dæmis af malaríu, lungnabólgu og niðurgangspestum. Venjulega er því talað um að börn láti lífið af orsökum tengdum vannæringu. Staðan er hins vegar svo slæm núna að sums staðar í Borno-héraði í norðausturhluta Nígeríu svelta börn til dauða.

Ef hægt er að veita öllum börnum í Borno, sem þjást af alvarlegri vannæringu, viðeigandi meðferð er hægt að bjarga meira en 99% þeirra.

UNICEF hefur í áratugi verið á staðnum í öllum fjórum ríkjunum sem um ræðir og hefur nú þegar útvegað mikið magn af lífsnauðsynlegum hjálpargögnum, meðal annars með hjálp heimsforeldra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×