Enski boltinn

Nýja liðið í Los Angeles vill fá Rooney

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fer Rooney til Bandaríkjanna?
Fer Rooney til Bandaríkjanna? vísir/getty
Los Angeles FC er nýtt lið í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta sem hefur leik sumarið 2018. Will Ferrell, gamanleikarinn vinsæli, er einn eigenda nýja liðsins sem mun spila á glæsilegum 20 þúsund manna leikvangi í borg englanna.

Tom Penn, meirihlutaeigandi Los Angeles FC, vill fá Wayne Rooney, fyrirliða Manchester United og enska landsliðsins, til liðsins áður en það hefur leik í MLS-deildinni.

Rooney er með samning við Manchester United til 2019 en hann hafnaði tækifæri á að spila í Kína í sumar. Hann hefur verið orðaður við brottför frá Old Trafford og nú sérstaklega eftir að hann missti sæti sitt í byrjunarliði United.

„Wayne Rooney er dæmi um leikmann í þeim gæðaflokki sem við viljum fá til LA FC,“ segir Penn í viðtali við ESPN FC. „Hann er einn af tíu leikmönnum sem við erum að skoða, en við erum langt frá því að ganga frá samningum við leikmenn.“

„Við erum 18 mánuðum frá fyrsta leiknum okkar í MLS þannig við munum sjá til hvort leikmenn á borð við Rooney hafi áhuga á að spila fyrir okkur. LA FC er samt metnaðarfullt félag þannig það er mikilvægt fyrir okkur að fá leikmenn sem heimurinn þekkir,“ segir Tom Penn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×