Innlent

Kennarar íhuga uppsagnir

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Grunnskólakennurum er nóg boðið eftir ákvörðun kjararáðs um að hækka laun ráðamanna og íhuga uppsagnir. Þeir segja hækkun á launum þingmanna svipaða og útborguð laun kennara með tíu ára reynslu.

Frá því í vor hafa kennarar tvisvar sinnum fellt nýja kjarasamninga vegna óánægju með þá. Þeir hafa því verið samningslausir síðan þá og eru ósáttir við þær launahækkanir sem þeim hafa verið boðnar.

Mikil reiði er í þeirra hópi eftir að greint var frá ákvörðun kjararáðs um að hækka laun ráðamanna en laun þingmanna hækka um tæplega 340 þúsund krónur á mánuði. Valgerður Rannveig Valgarðsdóttir, trúnaðarmaður kennara í Vesturbæjarskóla, segir kennara með tíu ára starfsreynslu í fullu starfi fá útborgað 300 til 350 þúsund krónur á mánuði.

„Þetta er bara svo glórulaust. Það skilur þetta enginn. Fólk er bara hálf miður sín og rosalega reitt,“ segir Valgerður.

Grunnskólakennarar í skólum um allt land hafa sent frá sér ályktanir í dag og í gær vegna ákvörðunar kjararáðs. Í þeim gagnrýna þeir að lítill vilji sé til að hækka laun þeirra á sama tíma og ráðamenn fá miklar launahækkanir. Þeir íhuga því uppsagnir.

„Ég get lofað því að ég muni segja starfi mínu lausu ef ég sé ekki fram á framtíð í þessu starfi,“ segir Gunnar Þór Andrésson.


Tengdar fréttir

Laun alþingismanna há í alþjóðlegu samhengi

Grunnlaun þingmanna hér á landi, samanborið við meðallaun í landinu, eru hærri en meðaltal Evrópusambandsins og á öðrum Norðurlöndum. Hlutfallið er svipað og í Þýskalandi og Bretlandi, en lægra en í Eystrasaltslöndunum.

Slá varnagla við inngripi í nýja launahækkun sína

Talsmenn flokkanna sem sæti eiga á Alþingi eru ekki allir afdráttarlausir varðandi þá spurningu hvort þingið eigi að hnekkja ákvörðun kjararáðs um mikla launahækkun þingmanna og ráðherra. Það verði ekki gert nema samhliða breytingu á fyrirkomulaginu við ákvörðun launanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×