Innlent

Sveitarstjórn Árborgar afþakkar launahækkun kjararáðs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sjö þúsund manns búa á Selfossi sem er stærsti þéttbýliskjarninn í sveitarfélaginu Árborg.
Sjö þúsund manns búa á Selfossi sem er stærsti þéttbýliskjarninn í sveitarfélaginu Árborg. vísir/pjetur
Kjaranefnd Árborgar samþykkti á fundi sínum í dag að miða áfram við það þingfararkaup sem var í gildi fyrir umdeilda ákvörðun kjararáðs um launahækkanir þingmanna, forseta og ráðherra.

Þóknanir til kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn Árborgar taka mið af þingfararkaupi sem samkvæmt ákvörðun kjararáðs er nú 1.101.914 krónur en var áður 762.940 krónur.

Á fundi kjaranefndar Árborgar í morgun var hins vegar ákveðið að miða áfram við hið eldra þingfararkaup vegna þóknunar til kjörinna bæjarfulltrúa og fyrir setu í nefndum. Þá munu laun framkvæmdastjóra sveitarfélagins einnig reiknast út frá eldra þingfararkaupi.

Í samtali við Vísi segir Ari B. Thorodssen, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í kjaranefnd að full sátt hafi ríkt um þessa ákvörðun meðal allra flokka í sveitarstjórn Árborgar.

Ákvörðun kjararáðs um að hækka laun þingmanna, ráðherra og forseta hefur vakið úlfúð í samfélaginu. Flest öll hagsmunasamtök sendu frá sér yfirlýsingu og ályktun þar sem krafist var að ákvörðunin yrði dregin til baka. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur sagt að hann muni ekki þiggja launahækkunina og Bjarni Benediktsson, starfandi fjármálaráðherra og handhafi stjórnarmyndunarumboðsins, segir að vel komi til greina að þingið grípi inn í.


Tengdar fréttir

Slá varnagla við inngripi í nýja launahækkun sína

Talsmenn flokkanna sem sæti eiga á Alþingi eru ekki allir afdráttarlausir varðandi þá spurningu hvort þingið eigi að hnekkja ákvörðun kjararáðs um mikla launahækkun þingmanna og ráðherra. Það verði ekki gert nema samhliða breytingu á fyrirkomulaginu við ákvörðun launanna.

Skýlaus krafa að hafna hækkunum kjararáðs

Verkalýðsfélög og hagsmunasamtök gagnrýna harðlega ákvörðun kjararáðs um hækkun launa til æðstu embættismanna. Krafist er að ákvörðunin verði tekin til baka annars sé stöðugleikanum ógnað og upplausn ríki í þjóðfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×