Innlent

Oddný flutti þakkarræðu: Falleg hugsjón Samfylkingarinnar ekki horfin

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Formaður Samfylkingarinnar sagði að þrátt fyrir að illa hafi farið eigi flokksmenn að vera stoltir af stefnu sinni.
Formaður Samfylkingarinnar sagði að þrátt fyrir að illa hafi farið eigi flokksmenn að vera stoltir af stefnu sinni. vísir/hanna
„Hættum að leita skýringa á óförum okkar. Við höfum eytt of miklum krafti í það síðustu vikur og mánuði,“ sagði Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, á kosningavöku flokksins á Bergsson mathúsi á Granda, eftir að fyrstu tölur lágu fyrir.

Samfylkingin mælist með 6,2 prósent samkvæmt nýjustu tölum og nær þannig einungis tveimur mönnum inn á þing, en Oddný er þar með talin. Oddný sagði að þrátt fyrir það megi flokksmenn vera stoltir af stefnu Samfylkingarinnar.

„Við erum auðvitað með frábæra frambjóðendur og ég vil bara segja það að mér finnst þeir bera af öðrum frambjóðendum, það er auðvitað engin spurning. Þeir hafa borið uppi stefnuna okkar fallegu og góðu og þó illa hafi verið, við vitum reyndar ekki hver staðan verður, en hún er að minnsta kosti ekki jafn góð og hún ætti að vera – er viðunandi í Norðaustur allavega,“ sagði hún.

„Ég vil bara segja eitt. Samfylkingin var stofnuð í kringum stóra, fallega hugsjón. Hún er ekki farin frá okkur. Og kosningabaráttan var að mörgu leyti erfið, en hvað gerðuð þið? Þið hélduð baráttuandanum allan tímann og baráttu gleðinni sem skiptir svo miklu máli.“

Jóhanna K. Andrésdóttir, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, leit við á kosningavökunni og tók myndirnar að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×