Erlent

Obama segir ummæli Trump hættuleg

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Barack Obama hefur lýst yfir stuðningi við Hillary Clinton.
Barack Obama hefur lýst yfir stuðningi við Hillary Clinton. vísir/epa
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir það hættulegt af Donald Trump forsetaframbjóðanda að neita að gefa það út fyrirfram að hann muni una niðurstöðum forsetakosninganna í nóvember. Trump hefur ítrekað haldið því fram að úrslitunum verði hagrætt, ef Hillary Clinton mótframbjóðandi hans, vinnur kosningarnar.

Trump sagði í kappræðum við Clinton að hann muni ekki sætta sig við niðurstöðurnar ef hún sigrar í kosningunum, en gaf það svo síðar meir út að hann muni sætta sig við þær ef hann sjálfur sigrar.

Obama segir að með því að sá efasemdarfræjum í huga kjósenda um lögmæti kosninganna sé Trump að leika hættulegan leik sem henti óvinum ríkisins vel. Forsetinn segir það lífsnauðsynlegt fyrir lýðræðið að fólk trúi því að hvert atkvæði skipti máli.

Trump hefur verið harðlega gagnrýndur á meðal flokksmanna sinna innan Repúblikanaflokksins vegna ummæla sinna um að ætla ekki að sætta sig við niðurstöðurnar. Stuðningur við Trump innan flokksins hefur minnkað mikið og hafa fjölmargir frammámenn farið fram á að Trump dragi sig úr baráttunni. Ástæðan er meðal annars myndskeið sem birtist af Trump tala með niðrandi hætti um konur sem og ásakanir um kynferðisbrot frá hópi kvenna.

Innan við þrjár vikur eru í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, en þær fara fram 8. nóvember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×