Innlent

Guðni Th. kynnti Forvarnadaginn fyrir grunnskólanemendum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kynnti í dag Forvarnardaginn sem haldin er á hverju hausti.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kynnti í dag Forvarnardaginn sem haldin er á hverju hausti. Vísir/Stefán
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kynnti í dag Forvarnardaginn sem haldin er á hverju hausti í því sem næst öllum grunnskólum landsins. Forvarnardagurinn verður haldinn á miðvikudaginn kemur.

Haldinn var sérstakur blaðamannafundur þar sem forseti Íslands, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fulltrúar þeirra samtaka og bakhjarla sem að deginum standa mættu ásamt skólastjóra og nokkrum unglingum úr Langholtsskóla.

Er sjónunum beint sérstaklega að unglingum í 9. bekk en einnig taka fjölmargir framhaldsskólar þátt í þessu verkefni. Að deginum standa forseti Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátarnir, Ungmennafélag Íslands, Félag framhaldsskóla, Rannsóknir og greining og Samband íslenskra sveitarfélaga en Actavis er bakhjarl verkefnisins.

Munu forseti Íslands, borgarstjóri, forsvarsmenn fjöldahreyfinganna og aðrir fulltrúar þeirra, sem að deginum standa, heimsækja skóla víða um land á miðvikudaginn með það að markmiði að vekja ungt fólk til umhugsunar um þær hættur sem fylgja áfengis- og vímuefnaneyslu.

Á Forvarnardaginn ræða nemendur í skólunum um hugmyndir sínar og tillögur um æskulýðs- og íþróttastarf, fjölskyldulíf og hvaðeina sem eflt getur forvarnir. Hugmyndirnar eru svo teknar saman og settar í skýrslu sem birt er á vefsíðu dagsins, www.forvarnardagur.is.

Forvarnardagurinn er nú haldinn í ellefta sinn í grunnskólum landsins og í sjötta sinn í framhaldsskólum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×