Innlent

Ekki þörf á nýju umhverfismati fyrir Bakkalínur

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellst ekki á kæru Landverndar um að mat á umhverfisáhrifum háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka sé úrelt eða forsendur fyrir því brostnar.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellst ekki á kæru Landverndar um að mat á umhverfisáhrifum háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka sé úrelt eða forsendur fyrir því brostnar. Vísir/Anton
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellst ekki á kæru Landverndar um að mat á umhverfisáhrifum háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka sé úrelt eða forsendur fyrir því brostnar. Nefndin telur hins vegar annmarka á afgreiðslu og útgáfu Skútustaðahrepps á framkvæmdaleyfi til Landsnets. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti, sem hefur nú kynnt sér úrskurð nefndarinnar.

„Ljóst er að úrskurðurinn staðfestir að umhverfismat vegna háspennulínu frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka sé í fullu gildi og því er ekki þörf á nýju umhverfismati. Þá staðfestir úrskurðarnefndin að öll skilyrði fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi voru fyrir hendi,” segir í tilkynningunni.

Nefndin staðfestir að matið hafi verið ítarlegt og að kostir um mismunandi leiðaval hafi verið metnir með fullnægjandi hætti. Niðurstaða nefndarinnar er að matið sé í fullu gildi og að ekki sé þörf á nýju mati á umhverfisáhrifum, auk þess sem framkvæmdirnar séu í samræmi við umhverfismat og skipulag.

Þá staðfesti nefndin einnig að framkvæmdaleyfisumsókn Landsnets og fylgigögn hafi fullnægt ákvæðum skipulagslaga, sem og að framkvæmdir Landsnets séu í samræmi við skipulagsáætlanir og að lögbundinna umsagna hafi verið leitað.

Landsnet telur mikilvægt að eyða óvissu um framhald verkefnisins. „Framkvæmdir hafa legið niðri síðan að þær voru stöðvaðar að kröfu Landverndar þann 21. ágúst síðastliðinn og eru þær tafir sem orðið hafa vegna þess þegar orðnar mjög kostnaðarsamar auk þess sem óvissa ríkir um framhald verkefnisins. Landsnet leggur áherslu á að allri óvissu verði eytt sem fyrst enda eru þær línulagnir sem um ræðir lokaskref framkvæmdar sem hefur verið mörg ár í undirbúningi.”

Í tilkynningu frá Landvernd kemur hins vegar fram að Landvernd telji úrskurð þann sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í gær um að ógilda framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps fyrir Kröflulínu 4 vera fordæmisgefandi.

„Mikilvægt er að framkvæmdaraðilar, Skipulagsstofnun og sveitarfélög í landinu líti í eigin barm, læri af þeim mistökum sem hér voru gerð og líti til þeirra leiðbeininga sem felast í úrskurðinum. Á þetta ekki síst við um undirbúning og framkvæmd umhverfismats, eftirlit með því og þá ábyrgð sem fylgir ákvarðanatöku um framkvæmdir sem hafa verulega áhrif á umhverfið,“ segir í tilkynningu Landverndar. 


Tengdar fréttir

Kæra Bakkalínur til ESA

Náttúruverndarsamtökin Fjöregg í Mývatnssveit og Landvernd hafa kært fyrirhugaða lagasetningu um Bakkalínur til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.