Innlent

Stjórnarandstaðan leggst gegn flýtimeðferð á raflínum til Bakka

Heimir Már Pétursson skrifar
Þingflokksformaður Bjartrar framtíðar segir gerræðislegt af ríkisstjórninni að ætla að grípa fram í löglegt ferli við mat á áhrifum háspennulína til kísilvers á Bakka með lagasetningu. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra telur hins vegar nauðsynlegt að Alþingi samþykki sem fyrst frumvarp sem heimili lagningu raflínanna.

Ragheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að fullreynt hafi verið að reyna að ná samkomulagi um málið þannig að hegfja mætti á ný framkvæmdir við að leggja raflínur frá Þeistareykjum og Kröflu að Bakka. Þá hafi sveitarfélögin fyrir norðan þrýst á stjórnvöld að höggva á hnútinn.

Ríkisstjórnin samþykkti á aukafundi í morgun að iðnaðarráðherra leggði fram frumvarp um raflínurnar, en framkvæmdir við þær hafa legið niðri um nokkurra vikna skeið eftir að Landvernd kærði framkvæmdina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Nefndin telur sig síðan þurfa nokkra mánuði til að meta áhrif raflínanna á hraun og landslag. Ráðherra segir allra leiða hafa verið leitað til að leysa málið án aðkomu löggjafans, en ekki sé hægt að vinna við línulögnina yfir vetrarmánuðina.

Ertu að binda vonir við það að stjórnarandstaðan þurfi að tala lítið um þetta mál?

„Ég vona að stjórnarandstaðan, hvaða afstöðu sem hún hefur í þessu máli, skynji þá ábyrgð sem á okkur hvílir. Þetta er mál sem á sér upptök á síðasta kjörtímabili og var sett af stað í tíð þáverandi ríkisstjórnar,“ segir Ragnheiður Elín.

Önnur staða uppi en í tíð fyrri stjórnar

Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi fjármálaráðherra segir þetta mál vissulega hafa verið á dagskrá fyrri ríkisstjórnar.

Er þá ekki akkur að koma málinu í gegn?

„Þetta fjárfestingarverkefni sem slíkt á sér auðvitað uppruna á síðasta kjörtímabili. Það er alveg rétt og við kláruðum þá samnnga sem til þurfti til að það gæti farið af stað. En staðan sem upp er komin núna er allt annars eðlis og ný af nálinni og hefur í sjálfu sér ekkert með málatilbúnað fyrri ríkisstjórnar að gera,“ segir Steingrímur.

Þingflokkur Vinstri grænna eigi eftir að kynna sér frumvarpið og taka afstöðu til þess. Hugsanlega rekist eldri og nýrri lög á.

„Staðan er alvarleg hvað það varðar ef þessar miklu framkvæmdir allar tefjast eða eru komnar í uppnám. En um leið er hitt alltaf mjög vandasamt að grípa inn í ferla sem eru í gangi samkvæmt lögum, segir Steingrímur.

Verður ekki afgreitt með hraði

Iðnaðarráðherra segir mikla hagsmuni í húfi og málið geti ekki beðið fram yfir kosningar í lok næsta mánaðar.

„Og það er þess vegna sem við ákveðum að grípa inn í þetta ferli og ekki leyfa úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál að ljúka ferlinu. það tekur of langan tíma. Þá er óvissa og það eru fjármögnunaraðilar og aðrir sem hafa af þessu áhyggjur,“ segir Ragnheiður Elín.

Björt Ólafsdóttir þingflokksformaður Bjartrar framtíðar tekur illa í að málið fái flýtimeðferð á Alþingi. Þannig var líka hljóðið í þingmönnum annarra stjórnarandstöðuflokka sem fréttastofa ræddi við.

„Það sem manni skilst er að eigi að fara að gera er að grípa inn í löglegt ferli. Þar sem úrskurðanefnd er að störfum. Út af þvi að niðurstaðan eða ferlið er ekki að henta ráðherra í þessu tilviki,“ segir Björt.

Fjárhagslegir hagsmunir einstakra fyrirtækja geti ekki ráðið ferðinni.

„Þannig vinnubrögð ganga auðvitað ekki upp fyrir Alþingi íslendinga. Það eru gerræðisleg vinnubrögð. Við förum eftir bókinni og það munum við gera í þessu máli,“ segir Björt Ólafsdóttir. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.