Fótbolti

Áratugur síðan Akinfeev hélt síðast hreinu í Meistaradeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Akinfeev er fyrirmunað að halda hreinu í Meistaradeild Evrópu.
Akinfeev er fyrirmunað að halda hreinu í Meistaradeild Evrópu. vísir/getty
Áratugur er síðan Igor Akinfeev, markvörður og fyrirliði CSKA Moskvu, hélt síðast hreinu í leik í Meistaradeild Evrópu.

Akinfeev var nálægt því að halda hreinu gegn Monaco í gær en var á endanum sigraður af Bernando Silva þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.

Hinn þrítugi Akinfeev hefur ekki haldið hreinu 40 Meistaradeildarleikjum í röð. Það gerðist síðast í markalausu jafntefli gegn Arsenal 1. nóvember 2006.

CSKA Moskva hélt síðast hreinu í Meistaradeildinni þegar liðið gerði markalaust jafntefli við tyrkneska liðið Trabzonspor 2. nóvember 2011. Vladimir Gabulov stóð í marki CSKA í þeim leik.

Þrátt fyrir að hafa mistekist að halda hreinu í gær fékk Akinfeev mikið hrós frá Leonardo Jardim, knattspyrnustjóra Monaco, eftir leikinn.

„Markvörðurinn þeirra var framúrskarandi. Hann bjargaði marki í 2-3 skipti,“ sagði Jardim um Akinfeev sem fær enn eitt tækifærið til að halda marki sínu hreinu þegar CSKA mætir Monaco á útivelli 2. nóvember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×