Erlent

Tala látinna komin yfir 260

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Haítí þar sem eyðileggingin er gífurleg.
Frá Haítí þar sem eyðileggingin er gífurleg. Vísir/AFP
Tala látinna í Haítí er nú komin í minnst 261. Fyrr í kvöld hafði hún verið hækkuð úr 23 í 108. Íbúar við suðausturströnd Bandaríkjanna búa sig nú undir að fellibylurinn Matthew skelli á þeim en um tveimur milljónum manna hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín við ströndina.

Ríkisstjórn Haítí segir að um 50 hafi dáið í bænum Roche-a-Bateau. Þá eyðilögðust um 80 prósent húsa í borginni Jeremie. Um 30 þúsund heimili eyðilögðust á því svæði sem verst varð úti í fellibylnum.

Matthew er kröftugasti fellibylurinn sem herjar á Karíbahafið í tæpan áratug. Dregið hafði úr krafti hans á síðustu dögum en nú er aftur búið að setja hann í fjórða flokk. Vindur nær allt að 220 kílómetra hraða í fellibylnum. Það samsvarar um 61 metra á sekúndu.

Búist er við því að hann muni ná landi í Flórída í nótt, eða fara með strandlengjunni norður.

Ríkisstjóri Flórída hefur biðlað til íbúa að hlýða skipunum um brottflutning. Fjöldi fólks hafi þegar látið lífið vegna Matthew. Mikil rigning fylgir fellibylnum en einnig er búist við því að sjávarmál muni hækka.

Hér má sjá myndband af þaki fjúka af húsi á Bahameyjum.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×