Erlent

Minnst 108 látnir á Haítí

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Minnst 108 eru látnir eftir að fellibylurinn Matthew fór yfir Haítí á þriðjudaginn. Innanríkisráðherra landsins hefur staðfest töluna við AFP fréttaveituna en áður var vitað að minnst 23 hefðu látist. 50 létu lífið í bænum Roche-a-Bateau og hann er sagður gjörónýtur.

Matthew er kröftugasti fellibylurinn sem herjar á Karíbahafið í tæpan áratug. Hann stefnir nú hraðbyr á Flórída og austurströnd Bandaríkjanna. Þar undirbúa íbúar sig fyrir fellibylinn sem skellur á þeim í kvöld og í nótt.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni eru verslanir tómar víða í Flórída, Georgíu og í bæði Norður- og Suður Karólínu.

Ríkisstjóri Flórída, Rick Scott, segir að fellibylurinn gæti valdið gífurlegum skaða. Hann hvatti um eina og hálfa milljón íbúa til að yfirgefa heimili sín í dag.

„Ef þið viljið ekki flytja ykkur um set, hugsið um allt fólkið sem hefur dáið. Tíminn er að renna út. Fellibylurinn mun greinilega annað hvort skella beint á okkur eða fara með ströndinni og við munum þurfa að eiga við mikinn vind.“

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir neyðarástandi í Flórída.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×