Íslenski boltinn

Uppbótartíminn: Frábær lokaumferð framundan | Myndbönd

Ragnar Bragi Sveinsson skoraði gegn Þrótti en það dugði ekki til. Hann vildi einnig fá víti og hafði ýmislegt til síns máls.
Ragnar Bragi Sveinsson skoraði gegn Þrótti en það dugði ekki til. Hann vildi einnig fá víti og hafði ýmislegt til síns máls. vísir/eyþór
Tuttugustaogfyrsta umferð Pepsi-deildar karla fór fram í heild sinni í gær. Hverjir áttu góðan dag og hverjir erfiðan dag? Hvernig var umræðan á Twitter? Vísir gerir hér upp umferðina á léttum og gagnrýnum nótum.

Það dró bæði til tíðinda í Evrópu- og botnbaráttunni. Eyjamenn fóru mjög langt með að tryggja sér áframhaldandi sæti í Pepsi-deildinni með frábærum 4-0 sigri á bikarmeisturum Vals. Fylki tókst ekki að komast upp úr fallsæti og Víkingur Ó. bíður enn eftir sínum fyrsta sigri síðan í lok júní.

Stjarnan kreisti fram sigur í Grafarvoginum og er í lykilstöðu í baráttunni um Evrópusæti. Blikar töpuðu óvænt upp á Skaga en sjóðheitir KR-ingar unnu sinn fjórða leik í röð. Nýkrýndir Íslandsmeistarar FH töpuðu í Víkinni.

Umfjöllun og viðtöl úr öllum leikjum umferðarinnar:

Fjölnir 0-1 Stjarnan

Fylkir 2-2 Þróttur

ÍA 1-0 Breiðablik

ÍBV 4-0 Valur

Víkingur Ó. 0-1 KR

Víkingur R. 1-0 FH

Aron Bjarnason skoraði þrennu gegn Valsmönnum.vísir/stefán
Góð umferð fyrir ...

... Aron Bjarnason

Það var vel við hæfi að tveir bestu leikmenn ÍBV skildu sjá um að skora mörkin í sigrinum á Val. Hafsteinn Briem braut ísinn á 10. mínútu en þá var komið að Aroni sem fór á kostum og skoraði þrennu, sína fyrstu í efstu deild á ferlinum. Fyrsta mark hans var sérstaklega fallegt, bæði undirbúningurinn og afgreiðsla Arons. Strákurinn er ávallt ógnandi en hefur stundum gerst sekur um að fara illa með færin sín. Því var ekki að skipta í gær.

... Stjörnumenn

Garðbæingar sóttu þrjú stig í Grafarvoginn í gær. Sigurinn var ekkert rosalega sanngjarn en Stjörnumönnum er eflaust slétt sama enda standa þeir nú best að vígi í baráttunni um Evrópusæti. Stjarnan er í 2. sæti deildarinnar með eins stigs forskot á Breiðablik og KR og tveggja stiga forskot á Fjölni og á leik gegn ísköldum Ólsurum í lokaumferðinni. Það verður því að öllum líkindum spilaður Evrópufótbolti á Samsung-vellinum næsta sumar.

... Willum Þór Þórsson

Tölurnar tala sínu máli. Síðan þingmaðurinn tók við KR er liðið búið að vera það besta í Pepsi-deildinni. KR hefur unnið átta af 12 leikjum undir stjórn Willums sem hefur heldur betur barið í brestina í Vesturbænum. Willum er með góða leikmenn og fær þá til að spila saman sem lið. KR er komið upp í 4. sæti deildarinnar og á leik gegn fallkandítötum Fylkis í lokaumferðinni. Draumurinn um Evrópusætið lifir enn góðu lífi.

Ólafsvíkingar voru ekki hrifnir af dómgæslu Erlendar Eiríkssonar í leiknum gegn KR.vísir/hanna
Erfið umferð fyrir ...

... Fylki

Staða Árbæinga hefur verið svört í allt sumar en er orðin sótsvört eftir jafntefli við botnlið Þróttar í gær. Í lokaumferðinni þarf Fylkir að vinna heitasta lið deildarinnar (KR) og treysta á að Víkingur Ó. vinni ekki Stjörnuna á sama tíma. Fylkismenn hafa daðrað við fallið undanfarin ár og það er spurning hvort röðin sé nú komin að þeim að fara niður eftir 16 ára samfellda dvöl í efstu deild.

... Erlend Eiríksson

Ólafsvíkingar kunna Erlendi eflaust litlar þakkir fyrir frammistöðu hans í leiknum gegn KR í gær. Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka skoraði Stefán Logi Magnússon sjálfsmark en Erlendur blés í flautuna og dæmdi aukaspyrnu á Þorstein Má Ragnarsson. Fyrir hvað var erfitt að sjá en eftir leikinn svór Þorsteinn af sér allar sakir. Ólsarar hafa kvartað mikið yfir dómgæslunni í sumar en þarna áttu þeir fullan rétt á því að vera fúlir.

... Fjölni

Eftir tvö töp í röð eru örlög Fjölnismanna í baráttunni um Evrópusæti ekki lengur í þeirra höndum. Tapið fyrir Stjörnunni í gær hlýtur svíða sárt enda voru Grafarvogspiltar sterkari aðilinn, líkt og í fyrri leiknum gegn Garðbæingum. Fjölnismenn hafa átt flott tímabil en halda samt áfram að falla á stóru prófunum. Liðið missti af nokkrum tækifærum til að komast á toppinn fyrr í sumar og nú er Evrópa farin að fjarlægjast.

Stjarnan vann sterkan sigur á Fjölni í baráttunni um Evrópusæti.vísir/eyþór
Skemmtilegir punktar úr Boltavaktinni:

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Flórídana-vellinum:

„Andrés Már Jóhannesson fékk viðurkenningu frá Fylki hér fyrir leik. Hann er orðinn leikjahæsti leikmaður Fylkis í efstu deild með yfir 150 leiki.“

Kristinn Páll Teitsson á Norðurálsvellinum:

„Stuðningsmenn ÍA reyna að vekja sína menn til lífs með 15 manna víkingaklappi. Það er allt reynt.“

Guðmundur Tómas Sigfússon á Hásteinsvelli:

„Einungis einn girtur á vellinum, það er fermingardrengurinn Andri Ólafsson sem er þekktur fyrir það að vera mjög prúður, innan sem utan vallar. Hann hefur átt frábæra leiki með ÍBV og þegar hann nær fleiri en 60 mínútum gengur liðinu oft vel.“

Fylkismaðurinn Arnar Bragi Bergsson tekur skemmtilegt innkast.vísir/eyþór
Hæstu og lægstu einkunnir umferðarinnar:

Aron Bjarnason, ÍBV - 9

Andri Ólafsson, ÍBV - 8

Hafþór Pétursson, ÍA - 8

Guðmundur Böðvar Guðjónsson, ÍA - 8

Róbert Örn Óskarsson, Víkingur R. - 8

Rasmus Christiansen, Valur - 3

Rolf Toft, Valur - 3

Martin Svensson, Víkingur Ó. - 3

Alfreð Már Hjaltalín, Víkingur Ó. - 3

Hallur Hallsson, Þróttur - 3

Björgvin Stefánsson, Þróttur - 3

Umræðan á #pepsi365

Mark 21. umferðar Atvik 21. umferðar Markasyrpa 21. umferðar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×