Fótbolti

Allardyce gerir aðeins þrjár breytingar frá Íslandsleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kane og Rooney byrja báðir á morgun.
Kane og Rooney byrja báðir á morgun. vísir/getty
Sam Allardyce hefur greint frá því hvaða 11 leikmenn munu byrja fyrsta leik hans við stjórnvölinn hjá enska landsliðinu.

Átta af þeim 11 sem voru í byrjunarliðinu þegar England féll úr leik fyrir Íslandi í 16-liða úrslitum á EM í Frakklandi fyrr í sumar halda sæti sínu fyrir leikinn gegn Slóvakíu í undankeppni HM 2018 á morgun.

John Stones, Jordan Henderson og Adam Lallana koma inn í byrjunarliðið á kostnað Daniel Sturridge, Chris Smalling og Dele Alli.

Allardyce stillir upp í leikkerfið 4-2-3-1. Harry Kane er fremstur og fyrirliðinn Wayne Rooney fyrir aftan hann. Á köntunum eru svo Raheem Sterling og Lallana.

Joe Hart, sem er nýgenginn í raðir ítalska liðsins Torino, er á sínum stað á milli stanganna og Stones leikur við hlið Gary Cahill í hjarta varnarinnar.

England og Slóvakía mættust í lokaleik riðlakeppninnar á EM í sumar og skildu jöfn þá, 0-0.

Leikur Slóvakíu og Englands á morgun hefst klukkan 16:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Byrjunarlið Englands er þannig skipað: Joe Hart; Kyle Walker, Gary Cahill, John Stones, Danny Rose; Eric Dier, Jordan Henderson; Raheem Sterling, Wayne Rooney, Adam Lallana; Harry Kane.


Tengdar fréttir

Rooney heldur fyrirliðabandinu hjá Englandi

Wayne Rooney verður áfram með fyrirliðabandið hjá enska landsliðinu. Sam Allardyce, nýr landsliðsþjálfari Englands, segir að þetta hafi verið auðveld ákvörðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×