Fótbolti

Stóri Sam: Rooney var frábær

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stóri Sam stýrði enska landsliðinu í fyrsta sinn í dag.
Stóri Sam stýrði enska landsliðinu í fyrsta sinn í dag. vísir/getty
Sam Allardyce var að vonum sáttur með að landa sigri í sínum fyrsta leik sem þjálfari enska landsliðsins.

Adam Lallana tryggði Englandi 0-1 sigur á Slóvakíu í undankeppni HM 2018 í dag en markið kom á fimmtu mínútu í uppbótartíma.

Englendingar léku manni fleiri frá 57. mínútu þegar Martin Skrtel, fyrirliði Slóvakíu, fékk að líta rauða spjaldið fyrir að traðka á Harry Kane.

„Þetta var frekar taugastrekkjandi undir lokin því við þurftum að vinna leikinn eftir brottreksturinn,“ sagði Stóri Sam eftir leik.

„Við fengum það sem við áttum skilið og skoruðum undir lokin. Við vorum með öll völd á vellinum og unnum mjög mikilvægan sigur,“ bætti Allardyce við.

Hann var einnig spurður um Wayne Rooney sem spilaði á miðjunni í dag, líkt og hann gerði á EM í Frakklandi.

„Wayne spilaði þar sem hann vildi. Hann var frábær og stjórnaði miðjuspilinu. Ég get ekki bannað honum að spila þar,“ sagði Allardyce sem er níundi landsliðsþjálfari Englands sem vinnur fyrsta leikinn í valdatíð sinni.

Næsti leikur enska liðsins er gegn Möltu á heimavelli laugardaginn 8. október næstkomandi. Þremur dögum síðar mætir England Slóveníu á útivelli.


Tengdar fréttir

Rooney sló met

Wayne Rooney varð í dag leikjahæsti útispilari í sögu enska landsliðsins í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×