Innlent

Skoða kaup á sjúkraþyrlu sem staðsett yrði á Suðurlandi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
„Þyrlur eins og þeir nota í Noregi eru mun fljótari í förum en sjúkraflug og þyrlur Landhelgisgæslunnar hér heima.“
„Þyrlur eins og þeir nota í Noregi eru mun fljótari í förum en sjúkraflug og þyrlur Landhelgisgæslunnar hér heima.“ Vísir/MHH/EPA
Sunnlendingar skoða nú hvort að tilefni sé til að kaupa þyrlu til sjúkraflutninga á Suðurlandi. Þyrlan yrði þá staðsett á Suðurlandi, en kostnaðurinn gæti verið sex til átta hundruð  milljónir króna.

„Þessi vinna er á undirbúningsstigi enda erum við að byrja að vinna þetta verkefni og erum að fá ráðgjafafyrirtæki til að útbúa og hjálpa okkur með kynningu í kerfinu,“ segir Styrmir Sigurðsson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi.

Styrmir kynnti málið, ásamt Vilhjálmi Árnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, á opnum fundi í Vestmannaeyjum í gær þar sem þeir fóru yfir hugmynd sína um sérhæfða sjúkraþyrlu. Málið hefur verið unnið með Viðari Magnússyni, yfirlækni utanspítalaþjónustu á Íslandi, og Njáli Pálssyni, formanni fagdeildar sjúkraflutninga hjá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

„Við erum fyrst og fremst að horfa til Noregs en þar eru sjúkraþyrlur sem hafa það hlutverk að flytja tæki og sérhæft starfsfólk á slysavettvang en þyrlan yrði mönnuð neyðarlækni og bráðatækni. Þyrlur eins og þeir nota í Noregi eru mun fljótari í förum en sjúkraflug og þyrlur Landhelgisgæslunnar hér heima,“ segir Styrmir.

Ef af kaupunum yrði þá er hugmyndin sú að þyrlan verði staðsett á Suðurlandi þar sem mesti ferðamannafjöldinn er, auk þess að þjóna Vestmannaeyjum og stöðum sem eru úr alfaraleið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×