Íslenski boltinn

Heimir: Ekkert í húsi meðan svona mikið er eftir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Heimir Guðjónsson þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson var kampakátur með sína menn í FH eftir frækinn sigur á Stjörnunni í Kaplakrika í kvöld. Sigurinn þýðir að Íslandsmeistararnir eru komnir með sjö stiga forystu á toppi deildarinnar þegar aðeins sex leikir eru eftir. Heimir segir þó ekkert öruggt þegar svo mikið er eftir af deildinni.

„Það er langur vegur eftir. Sex erfiðir leikir og meðan að það eru átján stig í pottinum er ekkert í húsi,“ segir Heimir sem var þó afar ánægður með að næla í stigin þrjú í kvöld.

„Þetta var góður og mikilvægur sigur. Við vorum góðir á leiknum á löngum köflum og Allir fótbolti sem spilaður í þessum leik var spilaður af hálfu FH. Stjarnan var bara í löngum boltum og reyna að vinna seinni boltann. Þetta var verðskuldað,“ segir Heimir.

Þrátt fyrir að FH hafi skorað þrjú mörk verður seint sagt að mörkin hafi verið þau glæsilegustu en þau kömu öll eftir klaufagang í vörn Stjörnunnar. Heimir er þó alveg sama um það og segir sóknarleik liðsins hafa hafa verið í góðu lagi í kvöld.

„Það skiptir mig engu máli hvernig mörkin eru. Við höfum verið í vandræðum með sóknarleikinn í sumar en við spiluðum mjög vel í kvöld. Við ætlum að halda því áfram,“ segir Heimir sem telur að sitt lið hafi sýnt mikinn karakter með því að næla í sigurinn eftir að Stjarnan náði í tvígang að jafna.

Heimir segir að nú skipti öllu máli að sigla titlinum heim, annað árið í röð.

„Við viljum vera á toppnum en það þýðir ekkert að hugsa of mikið um það. Við tökum bara einn leik í einu núna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×